Stök frétt

Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna til 15 ára kom út á árinu 2016 og eru þar sett fram 11 markmið sem miða að því að draga markvisst úr notkun plöntuverndarvara hér á landi í því skyni að ná fram sjálfbærni í notkun þeirra.

Plöntuverndarvörur eru notaðar gegn skaðvöldum í landbúnaði og garðyrkju og flokkast eftir notkunarsviði í illgresiseyða, sveppaeyða, skordýraeyða og stýriefni. Eitt af markmiðum í aðgerðaáætluninni er að ætíð liggi fyrir nýjustu upplýsingar um plöntuverndarvörur á markaði. Nú hefur Umhverfisstofnun lokið við samantekt fyrir árin 2009-2016 hvað þetta varðar.

Verulega hefur dregið úr magni plöntuverndarvara á markaði hér á landi frá árinu 2009 þegar innflutningurinn nam um 40.000 kg. Magnið árið 2016 er aðeins um fjórðungur af því. Það vekur athygli að talsvert miklar sveiflur eru í innflutningi á milli ára, sem stafar einkum af því hve fáar vörur eru á markaði hér. Algengt er að innflytjendur kaupi í hvert sinn inn birgðir sem endast í nokkur ár. Í aðgerðaáætluninni eru sett fram töluleg markmið eða áhættuvísar til að fylgjast með þróun í markaðssetningu þessara vara og er markmiðið að heildarinnflutningur á plöntuverndarvörum sé undir 12.000 kg á ári, þannig að ljóst er að markið hefur ekki náðst á árinu 2016, þótt ekki muni þar miklu, því innflutningur var 12.844 kg.

Einn áhættuvísirinn tekur mið af því hve mikið af plöntverndarvörum, sem ætlaðar eru til notkunar í atvinnuskyni, séu settar á markað hér á landi, mælt í kg af virku efni á ári. Það vekur athygli að sala á plöntuverndarvörum sem falla í þennan flokk jókst verulega á árinu 2016 eða úr 807 kg af virku efni á ári upp í 2.177 kg. Skýringin á þessari miklu aukningu kann að liggja í því að leyfi fyrir sölu og dreifingu á nokkrum algengum plöntuverndarvörum á markaði rann út 31. desember 2016, en heimilt var að nota þær út árið 2017 og er þarna um að ræða innflutning til að anna eftirspurn fyrir tvö ár. Þrátt fyrir þessa aukningu er magnið enn undir 2.400 kg af virku efni á ári, sem er markmiðið í Aðgerðaráætluninni.

Fjöldi plöntuverndarvara á markaði hér á landi hefur dregist saman undanfarin ár. Samkvæmt gögnum Umhverfisstofnunar er um að ræða 44 vörur á árinu 2016, sem skiptust þannig að 16 vörur á markaði eru ætlaðar til notkunar fyrir almenning en 28 vörur til notkunar í atvinnuskyni. Þessi samdráttur stafar meðal annars af því að plöntuverndarvörum með leyfi til að vera á markaði, svokallaða tímabundna skráningu, hefur fækkað. Ekki hafa verið gefin út nein markaðsleyfi í staðinn til þess að fylla upp í skörðin. Hluti skýringarinnar kann einnig að felast í því að þörfin fyrir þessar vörur hafi minnkað, vegna þess að bæði bændur og almenningur séu í auknum mæli að tileinka sér aðferðir í plöntuvernd sem ekki byggjast á notkun efna.

Skýrsla um markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara.

Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna.