Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun lauk nýverið úttekt á tollafgreiðslu plöntuverndarvara fyrir árið 2017 með hliðsjón af gögnum frá Tollstjóra og upplýsingum sem stofnunin sjálf hefur aflað. Vöruflokkar sem falla undir plöntuverndarvörur eru illgresiseyðar, sveppaeyðar, skordýraeyðar og stýriefni til notkunar í landbúnaði og garðyrkju. Af þeim hafa illgresiseyðar verið með mesta markaðshlutdeild, um eða yfir 70%.

Niðurstöður úttektarinnar sýna að innflutningur plöntuverndarvara nam 12 tonnum á árinu 2017 og  dróst því saman um 9% frá fyrra ári. Umhverfisstofnun hefur tekið saman gögn um innflutning plöntuverndarvara allt frá árinu 2009. Á þeim tíma hefur þróunin verið í þá átt að innflutningur á þessum vörum hefur dregist saman eins og sést á myndinni. Innflutningurinn sveiflast þó talsvert mikið á milli ára og topparnir koma fram þegar verið er að flytja inn birgðir af algengum plöntuverndarvörum sem duga í nokkur ár.

Samdráttur í framboði á plöntuverndarvörum á markaði hér á landi gæti átt sér nokkrar skýringar og eru þrjár líklegastar. Fyrst skal nefna að leyfum fyrir þessum vörum hefur fækkað umtalsvert frá því að efnalögin tóku gildi árið 2013 og margar plöntuverndarvörur sem voru algengar í notkun eru með öllu horfnar af markaði. Þá hefur í öðru lagi áhrif að bændur hafa í auknum mæli tekið upp líffræðilegar varnir eða aðrar aðgerðir í plöntuvernd, sem ekki byggjast á notkun efna. Loks kann skýringin að liggja í að áhugi á notkun plöntuverndarvara hafi dregist saman sem afleiðing af aukinni umræðu um skaðsemi þeirra gagnvart heilsu og umhverfi.

Í Aðgerðaráætlun um notkun varnarefna 2016-2031 eru settir fram áhættuvísar um innflutning plöntuverndarvara. Nýtast upplýsingar úr þessari úttekt til að reikna þá út. Samkvæmt aðgerðaráætluninni skal innflutningur á plöntuverndarvörum ekki vera meiri en sem nemur 12 tonnum alls á hverju ári og því ljóst að það markmið náðist 2017.

Hér má finna nánari upplýsingar um úttektina