Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Alþjóðadagur landvarða er haldinn hátíðlegur um allan heim til að styðja við ómetanleg störf landvarða við að vernda villta náttúru og dýralíf sem á undir höggi að sækja allsstaðar í heiminum.

Þessi dagur sem er haldinn hátíðlegur 31. júlí ár hvert er fyrst og fremst til að minnast þeirra mörgu landvarða sem hafa látist eða slasast við skyldustörf. Árið 2017 er talið að 128 landverðir hafi látið lífið við störf sem snúa að verndun náttúru og dýralífs. Flestir þeirra eru frá Afríku og Asíu þar sem landverðir eiga m.a. í stríði við veiðiþjófa og skógarhöggsmenn. Þessi dagur er einnig haldinn hátíðlegur til að fagna störfum landvarða um allan heim sem leggja sig alla fram við að vernda náttúru- og menningarleg verðmæti heimsins.

 Á Íslandi starfa landverðir á náttúruverndarsvæðum og hefur landvörðum hér fjölgað á undanförnum árum samfara fjölgun ferðamanna. Náttúruverndarsvæði eru einnig vinsæl útivistarsvæði á meðal Íslendinga. Landverðir fræða og upplýsa gesti svæðanna um hvernig eigi að njóta gæða móður náttúru án þess að raska auðlindum hennar svo næstu kynslóðir fái einnig notið þess. 

Landverðir Íslands ætla að fagna þessum degi þriðjudaginn 31. júlí víða um land og bjóða gestum náttúruverndarsvæða í fræðslugöngur og kynna störf landvarða og náttúru og sögu svæðanna. Gestir eru hvattir til að klæða sig eftir veðri, vera í góðum skóm og jafnvel taka með sér nesti.

 • Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull
  Lagt af stað frá gestastofunni Malarifi. Landverðir munu leggja áherslu á að kynna störf landvarða. Gangan byrjar kl. 13:00 og tekur um 1 - 1,5 klst. Eftir göngu verður gestum boðið að kynna sér störf landvarða víðsvegar um heiminn í gestastofunni. Nánari upplýsingar í síma 436-6888.
 • Friðland að Fjallabaki
  Lagt af stað frá upplýsingabás í Landmannalaugum. Landverðir  munu bjóða gestum í göngu um Laugahraun í Landmannalaugum og fræða þá um störf landvarða og náttúru og sögu friðlandsins. Gangan byrjar kl. 13:00 og tekur um 2,5 klst. og er miðlung létt. Nánari upplýsingar í síma 822-4083.
 • Friðlandið Dyrhólaey
  Lagt af stað frá salernishúsinu á Lágey. Landverðir munu bjóða gestum í göngu um eyjuna og fræða þá um störf landvarða og náttúru og sögu Dyrhólaeyjar. Gangan byrjar kl. 13:00, tekur um 2 klst. og er miðlungs létt. Nánari upplýsingar í síma 822-4088.
 • Friðlandið í Húsafelli
  Lagt af stað frá upplýsingamiðstöðinni í Húsafelli. Landvörður býður gestum í göngu um friðlandið og mun fræða þá um störf landvarða, náttúru og sögu friðlandsins. Gangan byrjar kl. 13:00, tekur um 2,5 klst. og er miðlungs létt. Nánari upplýsingar í síma 822- 4082.
 • Friðlandið Vatnsfirði
  Lagt af stað frá Hótel Flókalundi þar sem sameinast verður í bíla. Landverðir bjóða upp á létta fræðslugöngu um rætur Þingmannaheiðar þar sem sjónum verður beint að flóru friðlandsins sem er rómað fyrir gróðursæld. Gangan byrjar kl. 16:00 og tekur um 1,5 kls. Nánari upplýsingar í síma 822-4080.
 • Náttúruverndarsvæðið Látrabjarg
  Lagt af stað frá vitanum á Bjargtöngum. Landvörður býður upp á stutta fræðslugöngu þar sem fjallað verður um fuglana sem hreiðra um sig í bjarginu á sumrin og lifnaðarhætti þeirra.  Gangan byrjar kl. 16:00 og er auðveld þar sem gengið verður með brúnum Látrabjargs. Nánari upplýsingar í síma 822-4091.
 • Náttúruverndarsvæði Reykjanesi
  Landverðir verða með fræðslugöngu. Dagskrá auglýst síðar.