Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur í sumar unnið að sýnatökum í vatni í þeim tilgangi að kortleggja útbreiðslu efna sem talin eru ógn við vatnaumhverfi í Evrópu.

Sýnin voru tekin í fráveituvatni við útrásina við Klettagarða í Reykjavík, við útrásina í Varmá úr hreinsistöðinni í Hveragerði og við bakka Mývatns.

Um er að ræða efni sem finnast í fráveituvatni víða í Evrópu s.s. lyfjaleifar, kynhormón og plöntuvarnarefni og eru á svokölluðum Vaktlista Evrópusambandsins.

Sýnin voru tekin í samstarfi við vísindamenn frá háskólanum í Kristanstad í Svíþjóð sem einnig greina efnin á þar til gerðri vottaðri rannsóknastofu. Sýnatakan var unnin í samráði og samvinnu við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, heilbrigðiseftirlit Suðurlands, heilbrigðisnefnd Norðurlandssvæðis eystra, Landhelgisgæsluna og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn (Ramý) og er liður í innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins hér á landi. Niðurstaðna er að vænta innan fárra vikna.