Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Um áramótin 2017-2018 var óvenju mikil loftmengun á höfuðborgarsvæðinu og á mörgum mælistöðum mældist mjög hár styrkur svifryks. Efnagreiningar Umhverfisstofnunar á svifrykssýnum frá Norðurhellu í Hafnarfirði sýndu greinilega aukningu á innihaldi blýs (Pb) og arsens (As) í samanburði við aðra daga eins og sjá má á þessari mynd.

 

 

Þótt aukningin væri greinileg voru gildin þó langt undir heilsuverndarmörkum hvað þessi efni varðar.

Skoteldar innihalda mörg mismunandi efni sem bætt er í þá til að framkalla litríkar og háværar sprengingar. Hafa þungmálmar mikið verið notaðir í þessum tilgangi, vegna þess að bruni þeirra er mjög litríkur. Sá galli er á gjöf Njarðar að þessi efni eru mörg hver eitruð, þau brotna hægt niður í náttúrunni og safnast fyrir í lífverum. Þessar staðreyndir hafa orðið til þess að  notkun margra þeirra hefur verið takmörkuð eða bönnuð.

Umhverfisstofnun hefur það hlutverk samkvæmt efnalögum að upplýsa almenning um hættu tengda notkun á efnum, efnablöndum og hlutum sem innihalda efni til verndar heilsu eða umhverfi. Vegna þeirrar skyldu tók stofnunin ákvörðun í ljósi þeirrar miklu loftmengunar sem varð um síðustu áramót, að ráðast í efnagreiningar á skoteldunum sjálfum m.a. til að kanna hvort þeir standist kröfur efnalaga.

Eitt sýni mjög hátt í blýi

Tekin voru 20 sýni í heildina hjá öllum sem fluttu inn skotelda fyrir síðustu áramót. Voru þau efnagreind fyrir arseni og blýi með hliðsjón af ofangreindu. Auk þess var hexaklóróbensen mælt til að bera niðurstöður saman við efnagreiningar sem gerðar voru af Umhverfisstofnun á því efni árið 2012 sem og kvikasilfur (Hg) vegna aðildar Íslands að Minamatasamningnum sem hefur það markmiði að draga úr losun kvikasilfurs á heimsvísu. Niðurstöður efnagreininganna fylgja í meðfylgjandi töflu.

 

 

Blý mældist í óeðlilega miklu magni í einu sýni af þeim 20 sem voru greind eða sem samsvaraði um 8% af þyngd púðurs í viðkomandi vöru. Er það u.þ.b. 1500 falt hærri styrkur en í hinum sýnunum. Þarna var um að ræða kúlublys í fjölskyldupakka frá PEP International. Má telja líklegt að blýi hafi verið bætt í vöruna til að fá fram ákveðna eiginleika.

Þar sem eftirlit með flugeldum er á hendi Neytendastofu sendi Umhverfisstofnun þessar niðurstöður efnagreininga þangað og hefur Neytendastofa þegar stöðvað markaðssetningu á vörunni sem innihélt þetta mikla blýmagn.

Varðandi önnur sýni sem innihéldu blý í lágum styrk er hægt að útskýra það með náttúrulegum styrk í hráefnum púðursins. Sömu sögu er að segja um arsen og kvikasilfur.

Hexaklóróbensen greindist aðeins í 4 af 20 sýnum og reyndust þau gildimjög lág og langt undir leyfilegum mörkum, sem eru 50 mg/kg. Þetta er mjög jákvæð þróun þar sem árið 2012 mældist hexaklóróbensen yfir leyfilegum mörkum í tveimur skoteldavörum og var þá hæsta gildið 600 mg/kg.

Umhverfisstofnun hefur haft samband við alla innflytjendur vegna niðurstaðna eftirlitsins og bent þeim á að leita leiða til að draga sem mest úr innihaldi hættulegra efna í skoteldum sem þeir setja á markað.

Frekari mælingar um áramótin

Umhverfisstofnun mun standa fyrir frekari mælingum á efnainnihaldi svifryks nú um áramótin. Fyrir ári var sýnum safnað á mælistöðinni við Norðuhellu í Hafnarfirði, en sú mælistöð er utan við þéttustu byggðina og því líklega sú stöð þar sem skoteldamengun var einna lægst á höfuðborgarsvæðinu. Tækjabúnaðurinn sem notaður var við sýnatökuna hefur nú verið færður og var nýlega settur upp á mælistöðinni við Grensásveg. Sambærilegur búnaður verður líka settur upp við Dalsmára í Kópavogi þar sem metgildi svifryks mældust um síðustu áramót. Gerðar verða mælingar á þungmálmum og PAH efnum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur lagt Umhverfisstofnun til viðbótarfjármagn vegna þessa, en svona efnagreiningar eru mjög kostnaðarsamar. Niðurstöður verða birtar um leið og þær liggja fyrir.

Umhverfisstofnun hvetur landsmenn til meðvitundar og ábyrgðar í meðförum skotelda um áramótin.