Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi fyrir CRI hf. Í tillögunni er lagt til að heimilt verði að framleiða metanól úr allt að 16,5 tonnum á dag af koldíoxíði og framleiða allt að 12 tonn af metanóli á dag með hjálp efnahvata og raforku og allt að 4.000 tonn af metanóli á ári, auk reksturs vetnisrafgreina, verkstæða og annarrar þjónustu fyrir starfsemina, svo sem rannsóknarstofu. Starfsemin verður í metanólverksmiðju fyrirtækisins í Svartsengi, Grindavíkurbæ.

Umhverfisstofnun sendi umsögn til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismatsins þann 4. janúar 2017. Í umsögninni benti stofnunin á að í frummatsskýrslu hafi komið fram að umhverfisáhrif verksmiðjunnar verði jákvæð vegna minni útblásturs koldíoxíðs, þrátt fyrir losun lítilræðis af VOC-lofttegundum. Um er að ræða bindingu á verulegu magni koldíoxíðs frá orkuveri HS Orku. Helstu neikvæðu áhrif gætu orðið vegna niðurdælingar frárennslisvatnsins, en samkvæmt áliti ÍSOR ætti niðurdælingin ekki að hafa áhrif á ferskt grunnvatn ef að dælingunni verði staðið í samræmi við ábendingar ÍSOR. Mengunarefnið er metanólleif sem er langstærsti hluti lífræns efnis sem getur verið í frárennslisvatninu. Niðurdælingin er valin sem losunarviðtaki af hálfu umsækjanda m.a. með tilliti til þess að engin á eða lækur er í nágrenni verksmiðjunnar og því er ekki nærtækur viðtaki ofanjarðar. Skipulagsstofnun birti álit sitt um mat á umhverfisáhrifum þann 19. maí 2017.

Samkvæmt reglugerð um varnir gegn mengun grunnvatns nr. 797/1999 er mengun grunnvatns bönnuð, þó er  gert ráð fyrir að hægt sé að heimila beina losun mengandi efna með tilskildum leyfum með því skilyrði að  allar viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að koma í veg fyrir grunnvatnsmengun, meðal annars með því að beita bestu fáanlegri tækni (sem eftir nýlegar breytingar á lögum er nefnd „besta aðgengilega tækni“). Skylt er að tilgreina í starfsleyfi losunarstað, losunaraðferð, nauðsynlegar varúðarráðstafanir með sérstöku tilliti til eðlis og styrks efnanna sem er að finna í fráveituvatni. Skilyrðin sem Umhverfisstofnun setur fyrir þessu eru talin upp í grein 3.9. Ákvörðun skilyrðanna er með tilliti til BAT-niðurstaðna.

Gerð er grein fyrir jarðfræðilegri hæfni til að taka á móti vatninu í niðurdælingunni í skýrslu ÍSOR nr. 15037 og var niðurstaðan á þá leið að vatnið myndi eiga greiða leið í jarðlög borholunnar SV-1 (sem fyrirhugað er að nota) án markverðrar röskunar á jarðsjávarlaginu. Í skýrslu ÍSOR nr. 18025 er ítarlegri umfjöllun um afdrif metanóls og niðurbrots þess. Þessi skýrsla er til komin vegna þess að Umhverfisstofnun taldi að nánar þyrfti að skoða afdrif metanóls í niðurdælingu enda fá fordæmi fyrir þessari aðferð við losun efna. Aðferð ÍSOR er fólgin í því að keyra þrívítt líkan sem gildir um flæði grunnvatns um gljúpan jarðveg, með þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Niðurstaðan sýnir að áhrifin eru staðbundin og bundin við 238-262 metra dýpi, ólíklegt sé að metanól berist meira en 90 m frá innspýtingarstað niðurdælingarinnar. Grunnvatnsstreymi, dreifing og niðurbrot tryggir að metanól safnast ekki upp við innspýtingarstaðinn. Líkanið segir einnig að reiknuð styrkminnkun á metanóli í frárennsli sé lækkun úr 536 mg/l í 1,2 mg/l á 70 dögum frá innspýtingu. Þess skal getið að samkvæmt gr. 3.9 er ekki heimilt að styrkurinn sé yfir 100 mg/l að meðaltali yfir árið. Stakar gusur geta þó komið með hærri styrk. Einnig er í starfsleyfistillögunni ákvæði um loftgæði með þeim hætti að mörk eru sett á rokgjörn lífræn efnasambönd.

Tillagan ásamt fylgigögnum, þ.á m. umsókn rekstraraðila, verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á auglýsingatíma, sem er á tímabilinu 24. janúar til 22. febrúar 2019. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 22. febrúar 2019.

Tengd skjöl:

Starfsleyfistillaga CRI
Umsókn um mengandi starfsemi
ISOR skýrsla nr. 18025 CRI
ISOR skýrsla nr. 15037 CRI
Umsögn heilbrigðiseftirlits um fráveitu
Staðfest afrit deiliskipulags
Matsskýrsla metanólverksmiðju CRI
Álit Skipulagsstofnunar