Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Þann 28. janúar fór fram eftirlit af hálfu Umhverfisstofnunar í verslunum Húsasmiðjunnar og Costco vegna ábendinga um markaðssetningu á rúðuvökva, en um var að ræða tvær vörur sem ekki uppfylltu skilyrði efnalaga nr. 61/2013 og reglugerðar 415/2014 um flokkun og merkingu efnavara.

Annars vegar var um að ræða rúðuvökvann Rain X De-Icer, sem var til sölu í Húsasmiðjunni, en birgir vörunnar er AB Varahlutir ehf. Á vöruna vantaði viðeigandi hættumerki og hættusetningum var ábótavant auk þess sem hættuflokkun vörunnar var röng og á hana vantar áþreifanlega viðvörun fyrir blinda og sjónskerta.

Hins vegar barst ábending um rúðuvökvann Prestone Screen Wash sem var til sölu í Costco og þar reyndust hættumerkingar ekki vera í samræmi við fyrirmæli sem stofnunin hafði áður gefið fyrirtækinu varðandi merkingar á umræddri vöru.

Í báðum tilfellum stöðvaði Umhverfisstofnun markaðssetningu varanna um stundarsakir í samræmi við heimildir hennar samkvæmt 57. gr. efnalaga og er fyrirtækjunum því óheimilt að markaðssetja þær þar til bætt hefur verið úr merkingum eða eftir atvikum til 26. febrúar nk.