Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur opnað Fjaðrárgljúfur á Suðurlandi á ný, en þung umferð ferðamanna auk langvarandi þýðu og vætutíðar stofnaði náttúru svæðisins í hættu um tíma. Stofnunin nýtti sér lagaákvæði til að loka svæðinu og gekk lokunin ágætlega. Einstaka brögð voru þó að því að ferðamenn reyndu að svindla sér inn á svæðið.

Ólafur A. Jónsson, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að Umhverfisstofnun hafi aukið landvörslu í Fjaðrárgljúfri og sé hún nú fyrir hendi allt árið. Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður hafi einnig í hyggju að taka höndum saman til að tryggja betur umsjón með þessu svæði.

„Það er augljóst að heilsárslandvarsla á þessu svæði mun koma sér mjög vel, enda höfum við lagt áherslu á að verja náttúruverndarsvæði sem viðkvæm eru fyrir ágangi ferðamanna og að á þeim svæðum sé jafnframt tryggð landvarsla. Það var því mikið gleðiefni að aukið fjármagn fékkst til landvörslu á þessu svæði,“ segir Ólafur.