Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfismál, mengun, eiturefnaúrgangur, skammsýni, græðgi, sifjaspell og glæpamennska voru meðal þráða sem spunnir voru í þáttaröðinni Ófærð 2. Bíó er bíó – og verður að teljast afar ólíklegt að förgun eiturúrgangs á íslenskum heiðum yrði í veruleikanum með þeim hætti sem fram kom í sjónvarpsþáttunum! En fyrr á árum, fyrir tíma strangna reglna um meðferð þessara efna, eru til dæmi um eitur í vatnsbólum hér á landi út af ófullnægjandi meðferð eiturefna. Okkur á Umhverfisstofnun datt í hug að almenningur gæti haft gagn og jafnvel gaman af að fá svör við nokkrum baneitruðum spurningum sem kunna að hafa kviknað vegna sýninga þáttanna vinsælu. Fylgir hér afraksturinn:

Eftirlit með úrgangi milli landa

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með flutningi úrgangs milli landa samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003.

Spilliefni eða hættulegan úrgang er heimilt að flytja úr landi til förgunar að gefnu leyfi umhverfisyfirvalda, hvoru tveggja í útflutnings- og innflutningslandi. Jafnframt þarf að vera búið að semja um viðtöku og úrvinnslu á úrganginum í móttökulandi, skv. reglugerð nr. 822/2010 um flutning úrgangs milli landa (reglugerð (EB) nr. 1013/2006 í EES viðbæti bls. 1-98.)

Spilliefni eru skilgreind í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang nr. 184/2002, þar sem stjörnumerktir úrgangsflokkar eru hættulegur úrgangur. Annan úrgang er einungis heimilt að flytja úr landi til endurnýtingar.

Gerður er greinarmunur á því hvort úrgangur fer úr landi til förgunar eða endurnýtingar. Bannað er að flytja út úrgang til förgunar til landa utan ESB og EES-ríkja.

Bann er við útflutningi úrgangs til endurnýtingar til landa sem ekki falla undir ákvörun Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD, Organisation for Economic Co-operation and Development). OECD ríkin eru núna alls 36. Hvorki Kína né ríki Afríku eru í OCDE. http://www.oecd.org/about/membersandpartners/

Hvert fer hættulegasti úrgangurinn?

Á undanförnum árum hefur útflutningur á hættulegum úrgangi eingöngu verið til Evrópulanda. Árið 2016 voru útgefin leyfi til útflutnings hættulegs úrgangs alls 17. Árið 2017 voru leyfin 27 talsins. Af þessum 44 leyfum voru 13 til förgunar, að öllu leyti eða að hluta til, en önnur leyfi voru gefin út til endurvinnslu eða endurnýtingar. Leyfin á þessum tveimur árum voru gefin út til eftirfarandi móttökulanda:

13 til Bretlands, 11 til Þýskalands, 6 til Danmerkur, 6 til Spánar, 3 til Belgíu, 2 til Noregs, 2 til Svíþjóðar og 1 til Frakklands. Ekkert til fjalllendis ofan Siglufjarðar!

En af hverju eru svona stífar reglur um meðferð hættulegs úrgangs? Jú í Ófærð varð Skúli, sonur Ketils, fárveikur á því að drekka vatn sem var mengað af PCB. Fiskarnir drápust og fuglarnir líka. Það eru til raunveruleg dæmi um allt þetta þar sem bæði fólk og skepnur veikjast eða drepast út af mengun frá hættulegum úrgangi sem fargað var ólöglega eða urðað fyrir löngu síðan áður en til voru komnar stífar reglur um meðferð þessa úrgangs. Það er einmitt tilgangurinn með þessum stífu reglum, að vernda heilsu fólks og hreinleika náttúrunnar.

Fengu leyfi fyrir kvikmyndatöku


Þá má einnig nefna að hluti upptöku á Ófærð 2 fór fram á vernduðum svæðum þar sem mikil náttúrufegurð og sérstakt landslag var í aðalhlutverki. Áréttað skal að sérstakt leyfi þarf til kvikmyndatöku innan friðlýstra svæða. Umhverfisstofnun gaf þannig út sérstakt leyfi með skilyrðum fyrir að bruni ætti sér stað í Reykjanesfólkvangi. Þá var einnig gefið út sérstakt leyfi vegna töku við Kleifarvatn, þar sem hundurinn var grafinn.

Umhverfisstofnun mun alltaf berjast með kjafti og klóm við þá sem hafa í hyggju að eyðileggja lífríki Íslands!