Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Víða um heim eru vötn í hættu vegna mengunar. Mengun af manna völdum berst í vötn með beinni losun og frá fjarlægum uppsprettum með úrkomu og andrúmslofti. Að auki geta efni borist í vatn vegna náttúrulegra ferla. Mörg þessara efna enda að lokum í hafinu þar sem þau geta haft ýmis konar áhrif á lífríki sjávar. Sum þeirra eru sérstaklega varasöm þar sem þau eru þrávirk og safnast auk þess upp í lífverum. Efnamengun í vatni getur bæði haft bráð og langvinn áhrif á manninn og aðrar lífverur og samfélög þeirra. Lífvist lífvera getur mengast og eyðilagst og draga kann úr líffræðilegri fjölbreytni. Því er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir styrk og útbreiðslu þessara efna í vatnsumhverfinu svo grípa megi til aðgerða. 

Í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna, Hafrannsóknastofnun, Matís, Landhelgisgæsluna, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn hefur nú verið hafin vöktun á svokölluðum forgangsefnum í yfirborðsvatni á Íslandi. Vöktunin er hluti af innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins og eru efnin og efnasamböndin sem um ræðir alls 45 og flokkast niður í málma, varnarefni, PAH efni, PBDE efni og mýkingarefni fyrir plast. Lista yfir efnin er að finna í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. 

Sýnatökur fara fram víðsvegar um land en sýnatökustaðir eru valdir út frá sérstakri aðferðafræði þar sem þeir mynda saman sérstakt vöktunarnet. Sýni eru bæði tekin á svæðum þar sem engar mengunaruppsprettur eru í nánd og þar sem hugsanlegt er að áhrifa frá nálægum uppsprettum gæti.

Fyrstu sýnatökur hafa nú þegar farið fram en vatnssýni eru tekin á eftirfarandi stöðum: 

Mývatni, Þingvallavatni, Eiðisvatni, Tjörninni í Reykjavík, Varmá í Ölfusi, Þjórsá, Ölfusá, Í sunnanverðum Faxaflóa vestan við Kjalarnes, Eyjafirði innanverðum, Pollinum í Skutulsfirði og innanverðu Viðeyjarsundi í Reykjavík. Auk þess munu tilheyra þessu vöktunarneti nokkrir sýnatökustaðir sem notaðir hafa verið til að fylgjast með uppsöfnun varasamra efna í kræklingi, svokölluðum OSPAR-stöðvum (Hvassahraun, Hvalfjarðarbotn, innst í Mjóafirði eystri og á Dalatanga).

Tíðni vöktunar er misjöfn eftir staðsetningu en þar sem sýnataka er tíðust eru tekin sýni sjötta hvert ár, einu sinni í mánuði.

Fyrstu niðurstöður efnagreininga munu liggja fyrir fljótlega. Spennandi verður að sjá hvort vatnið stenst gildandi umhverfismörk. Niðurstöður greininga á eiturefnum í kræklingi benda ekki til mikillar mengunar umhverfis Ísland en hér er hins vegar verið að greina mun fleiri efni, í vatnsfasa og auk þess einnig í ám og stöðuvötnum.