Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Þann 23. febrúar sl. tók Umhverfisstofnun ákvörðun um að loka gönguslóða á Skógaheiði meðfram Skógaá ofan við Fosstorfufoss, á grundvelli 25. gr. a laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Umrætt svæði er friðlýst náttúruvætti skv. augl. nr. 477/1987. Lokunin var bæði af öryggisástæðum og til að vernda gróður og landslag umhverfis gönguslóðann. Ákvörðun um lokun var tekin eftir að starfsmaður Umhverfisstofnunar gerði úttekt á svæðinu en vðkomandi gönguslóði og umhverfi hans reyndist afar illa farið vegna mikils fjölda gesta á svæðinu samhliða veðrabreytingum, hlýindum og mikillar vætu.

Óskað var eftir umsögnum sveitarfélagsins, landeiganda og hagsmunaaðila í samræmi við verkferil auk þess sem óskað var eftir almennum umsögnum á heimsíðu Umhverfisstofnunar. Umsagnir bárust frá 6 aðilum sem ýmist studdu eða gerðu ekki athugasemdir við ákvörðun stofnunarinnar. Einn landeigandi kvaðst samþykkur framlenginu lokunar símleiðis.

Hinn 4. mars sl. gerði starfsmaður Umhverfisstofnunar aftur úttekt á svæðinu. Ástand svæðisins reyndist vera hið sama og við síðustu úttekt. Umhverfisstofnun telur ekki ráðlegt að opna svæðið að svo stöddu þar sem aðstæður hafa ekki breyst. Stofnunin telur því nauðsynlegt að gönguslóði á Skógaheiði meðfram Skógaá verði lokaður áfram til 1. júní 2019 vegna verulegrar hættu á tjóni. Ef svæðið verður í stakk búið til að taka á móti gestum án þess að hætta sé á frekari skemmdum, verður svæðið opnað fyrr. Stofnunin óskaði eftir umsögnum sveitarfélagsins, landeiganda og annarra hagsmunaðila varðandi fyrirhugaða framlengingu á lokun svæðisins. Jafnframt var óskað eftir almennum umsögnum á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Umsagnir bárust frá 3 aðilum sem studdu ákvörðun stofnunarinnar um að framlengja lokun svæðisins Einn landeigandi lýsti sig samþykkan framlengingu lokunar símleiðis.

Umhverfisstofnun hefur heimild, skv. 25. gr. a. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, til þess að loka svæðum tímabundið í allt að tvær vikur. Sá tími er á enda hinn 9. mars 2019 og telur stofnunin nauðsynlegt að framlengja lokunina uns ástand gönguslóða og umhverfi hans er orðið viðunandi.

Lokunin tekur gildi klukkan 09 í fyrramálið, laugardaginn 09. mars.