Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Forsætisráðuneytið hefur nú lokið innleiðingu á fimmta og síðasta skrefinu í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri (www.graenskref.is) og fékk afhenta viðurkenningu í gær. Innleiðingu er þar með lokið og ná því umhverfismálin inn í hvern krók og kima í ráðuneytinu.

Starfsmenn hafa í gegnum verkefnið náð góðum árangri í umhverfismálunum þar sem má meðal annars nefna að:

 • Allur einnota borðbúnaður er horfinn!
  Það var venjan að starfsmenn notuðu einnota kaffimál en sú tíð er liðin. Notkunin fór úr 179 pappamálum á dag í 0.
 • Úrgangsmagn minnkað um 17% á milli áranna 2017 og 2018!
  Úrgangsmálin voru tekin föstum tökum með mikilli flokkun en vitundarvakning hefur einnig skilað sér í minna úrgangsmagni.
 • Minna notað af heitu vatni
  Með grænu bókhaldi kom í ljós óeðlilega mikilli heitavatnsnotkun og gripið var til aðgerða.
 • Áhersla er lögð á fjarfundi!
  Ísland er með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár sem kallar á mikil ferðalög. Ráðuneytið mun leggja mikla áherslu á fjarfundi til að draga úr ferðalögum starfsmanna og losun gróðurhúsalofttegunda.

Margir aðrir þættir hafa tekið stakkaskiptum innan ráðuneytisins og ýtt undir umhverfisvitund starfsmanna. Þó að innleiðingu skrefanna sé lokið mun vinnan halda áfram og árangrinum viðhaldið. 

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar afhenti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra viðurkenningu Grænna skrefa og eru þær glaðbeittar á myndinni eins og sjá má!