Stök frétt

Umhverfisstofnun fór á tímabildinu nóvember 2017 til desember 2018 í eftirlitsferðir til 20 verslana og skoðaði þar merkingar á 102 vörum í 36 vöruflokkum sem skylt er að hættumerkja vegna hættulegs innihalds. Í eftirlitinu voru gerðar athugasemdir við merkingar á 75 vörum sem gefur 74% frávik frá reglum hvað þetta varðar og því ljóst að enn er víða pottur brotinn þegar kemur að því að merkja hættulegar vörur í samræmi við kröfur í lögum og reglugerðum.

Eftirlit Umhverfisstofnunar með merkingum hættulegra efnavara er þess eðlis að ekki er tryggt að það gefi raunverulega mynd af því hve hátt hlutfall vara á markaði eru rétt merktar. Þetta stafar meðal annars af því að í einstökum eftirlitsverkefnum er aðeins skoðaður takmarkaður fjöldi vara í fáum vöruflokkum en líka af því hversu algengt það er að stofnunin fari í eftirlit vegna ábendinga um vanmerktar vörur. Í slíkum tilfellum er fyrirfram nokkuð ljóst að allar vörur sem teknar verða til skoðunar í eftirlitinu muni ekki uppfylla skilyrði laga og reglugerða.  

Til að skoða hvort niðurstöður eftirlits stofnunarinnar með merkingum á hættulegum efnavörum gefi hugsanlega skekkta mynd af raunverulegu ástandi á markaði var í þessu verkefni beitt annari aðferð en venjulega við val á úrtaki. Fólst hún í því að taka fram í hverri verslun allar efnavörur í ákveðnum vöruflokkum sem telja má að geti verið hættulegar heilsu eða skaðað umhverfið á einhvern hátt og velja síðan 1-5 vörur af handahófi til nánari skoðunar.

Farnar voru 1-2 eftirlitsferðir í hverjum mánuði á tímabilinu sem verkefnið stóð yfir og skoðaðar vörur sem flokkast hættulegar samkvæmt reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna. Verslanir sem lentu í úrtaki voru valdar á þann hátt að hægt væri að skoða þar sem fjölbreyttast vöruúrval frá mörgum birgjum og í hverri verslun var leitast við að velja til skoðunar allt að fimm vörur í mismunandi vöruflokkum.

Frávikin sem fundust í eftirlitinu voru flokkuð í þrjú stig eftir alvarleika og á kökuritinu sem fylgir fréttinni má sjá hlutfallslega skiptingu vara eftir alvarleikastigi frávika.

Algengast var að sjá frávik á 2. alvarleikastigi, en 47% varanna lentu þar og helstu ástæður þess voru til dæmis að vörurnar báru úreltar íslenskar merkingar, hættumerkingar voru réttar en á öðru tungumáli en íslensku, að upplýsingar um birgi vantaði eða mikilvægar upplýsingar varðandi hættu eða viðbúnað vantaði alfarið. Þegar um var að ræða frávik sem féllu undir þetta stig gerði Umhverfisstofnun kröfu um að allar vöru sem komnar eru í sölu væru endurmerktar með uppfærðum upplýsingum.

Í tilfellum þegar viðvörunarorð var rangt, þýðingu á hættu- eða varnaðarsetningum ábótavant, upplýsingar um birgi ófullnægjandi eða hættumerki of lítil flokkuðust frávikin á 1. alvarleikastig og þarna undir féllu 22% af vörunum sem skoðaðar voru í eftirlitinu. Í þessum tilfellum fór stofnunin fram á að allar vörur í nýjum sendingum frá birgi væru með uppfærðum merkingum en ekki þyrfti að endurmerkja vörur sem þegar voru komnar í hillur þegar eftirlitið átti sér stað.

Sem dæmi um frávik sem falla undir 3. alvarleikastig má nefna tilfelli þar sem að barnheld öryggislok vantar á umbúðir eða að hættumerki sé ekki til staðar ellegar það sé rangt og í slíkum tilfellum krefst Umhverfisstofnun þess að markaðsetning á vörunni um ræðir verði stöðvuð uns bætt hefur verið úr.

Enginn augljós munur var á gæðum merkinga eftir landshlutum en vörur með frávik virðast almennt vera færri í matvöruverslunum heldur en í sérvöruverslunum. Ekki verður annað séð út frá niðurstöðum þessa verkefnis en að hlutfall frávika í eftirliti Umhverfisstofnunar gefi raunverulega mynd af ástandi merkinga á hættulegum efnavörum á markaði. Því er ljóst að margir aðilar sem þarna bera ábyrgð þurfa að ráðast í átak til þess að tryggja að hættumerkingar verði í samræmi við kröfur laga og reglugerða.