Stök frétt

Í dag undirritaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra friðlýsingu friðlandsins Akureyjar á Kollafirði. Samhliða undirritaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri yfirlýsingu um samþykki landeiganda fyrir friðlýsingunni, en eyjan er í eigu Reykjavíkurborgar.

Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes. Friðlýsta svæðið er þó mun stærra þar sem það nær einnig til hafsvæðis í kringum eyjuna.

Markmiðið með friðlýsingu Akureyjar er að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni með því að vernda alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði í Reykjavík, en Akurey er mikilvægt búsvæði sjófugla. Þar er m.a. mikilvægt varpsvæði lunda sem skráður er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í bráðri hættu. Auk þess að vernda búsvæði lunda er markmið friðlýsingarinnar að vernda búsvæði teistu, æðarfugls og skarfa og lífríki í fjöru og á grunnsævi, einkum og sér í lagi með tilliti til fugla, sem og hafsbotninn.

Friðlýsing Akureyjar er fyrsta friðlýsingin sem skrifað er undir eftir að ráðherra setti í gang átak í friðlýsingum sem unnið er að í teymi sem í eiga sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Myndin er af ráðherra og bprgarstjóra á góðri stundu, að lokinni undirritun.