Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Rúm fjögur ár eru liðin síðan verkefnið Græn skref í ríkisrekstri fór formlega af stað og hefur orðið jákvæð þróun á tímabilinu. Ábyrgð stjórnvalda að draga úr umhverfisáhrifum er orðin skýrari. Til að viðhalda gæðum verkefnisins þarf reglulega að uppfæra aðgerðir og kröfur sem ríkisstofnunum eru settar. Síðastliðið sumar var gert endurmat á Grænum skrefum í ríkisrekstri og kröfur verkefnisins hertar.

Þar sem Umhverfisstofnun er sú stofnun sem veitir öðrum ríkisstofnunum viðurkenningu fyrir innleiðingu Grænna skrefa, þurfti að fá óháðan aðila til að kanna hvort allar aðgerðirnar væru uppfylltar hjá Umhverfisstofnun. Mannvit framkvæmdi úttektina. Niðurstaðan er að Umhverfisstofnun uppfyllir öll skref Grænna skrefa á öllum starfstöðvum sínum (Reykjavík, á Snæfellsnesi, Patreksfirði, Akureyri, í Mývatnssveit, á Egilsstöðum, Hellu og Vestmannaeyjum.

„Það er mjög ánægjulegt að við fáum þessa ytri úttekt sem staðfestir okkar árangur, enda ber hinu opinbera og þá ekki síst Umhverfisstofnun að vera öðrum fordæmi, vera til fyrirmyndar í umhverfismálum,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

Græn skref í ríkisrekstri snúast um að draga úr umhverfisáhrifum í rekstri stofnana, minnka losun gróðurhúsalofttegunda og auka umhverfisvitund starfsmanna ríkisins. Í dag eru 66 ríkisstofnanir í verkefninu og vinna þær allar að aðgerðum svo sem að auka umhverfisvænni samgöngur, draga úr neyslu og sóun og auka flokkun úrgangs. Stofnanirnar skila einnig umhverfis- og losunarbókhaldi þar sem þær fylgjast með árangri sínum og setja sér markmið um samdrátt í losun.