Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Eftirlit Umhverfisstofnunar með uppkveikivökvum fyrir grill sem eru á markaði hérlendis leiddi í ljós að engar af þeim 9 vörum sem skoðaðar voru reyndust vera með öllu frávikalausar hvað varðar merkingar og umbúðir. Frávikin voru misalvarlegs eðlis, en sum þó svo alvarleg að stofnunin greip til þess úrræðis að stöðva tímabundið markaðsetningu á 5 vörum, þar til úrbætur hefðu átt sér stað.

Uppkveikivökvar fyrir grill innihalda efni sem geta verið banvæn við inntöku ef þau komast í öndunarveg. Því er það sérlega mikilvægt að réttar hættumerkingar séu á vörunum með leiðbeiningum um örugga notkun og hvernig eigi að bregðast við slysum. 

Í reglugerð eru gerðar kröfur um að þessar vörur séu merktar á íslensku með viðvörunarorðinu „Hætta“ ásamt stöðluðum hættu- og varnaðarsetningum í samræmi við flokkun vörunnar. Þá skulu umbúðirnar vera með barnheld öryggislok og áþreifanlega viðvörun, sem er upphleyptur þríhyrningur til að vara blinda og sjónskerta við hættu. Jafnframt skulu umbúðirnar bera viðeigandi hættumerki og þar sem uppkveikivökvarnir sem skoðaðir voru í eftirlitinu innhalda jarðolíu eiga þeir allir að bera merkið sem varar við alvarlegum heilsuskaða og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni.

Frávik frá reglum um merkingar fólust í því að það vantaði alfarið merkingar á íslensku, lagfæra þurfti orðalag eða upplýsingagjöf á íslensku merkingunni og þá var áþreifanleg viðvörun ekki til staðar á einni vöru. Allar vörurnar reyndust vera með barnheld öryggislok.
Vörurnar sem lentu í úrtaki eftirlitsins komu frá 7 mismunandi birgjum. Brugðust þeir allir vel við kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur og hafa nú orðið við þeim á fullnægjandi hátt.

Samantekt um verkefnið má nálgast með því að smella hér.