Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun takmarkaði umferð um Hveri, Leirhnjúk og Stóra-Víti við Kröflu í Skútustaðahreppi frá því kl. 14:00 þann 2. ágúst 2019 og skyldi ástand svæðisins endurmetið innan tveggja vikna frá þeim tíma.  Umhverfisstofnun gerði aftur úttekt á svæðinu í gær.  Svæðið er enn mjög blautt og telur Umhverfisstofnun nauðsynlegt vegna mikillar umferðar ferðamanna um svæðið að viðhalda takmörkunum þeim sem settar voru 2. ágúst, áfram til 30. nóvember n.k.

Samkvæmt 25. gr. a. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 getur Umhverfisstofnun takmarkmarkað umferð eða lokað svæði vegna hættu á tjóni á náttúrunni.

Ákvæðið er svohljóðandi:

Ef veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru getur Umhverfisstofnun ákveðið að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags, [Landgræðslunnar] 1) eða landeiganda eða að eigin frumkvæði. Samráð skal haft um slíka ákvörðun við hlutaðeigandi sveitarfélag og fulltrúa ferðaþjónustu og útivistarfólks sem ætla má að hyggi á ferðir um svæðið. Ef um eignarland er að ræða skal ætíð haft samráð við eiganda lands eða rétthafa áður en ákvörðun er tekin. Takmörkunin eða lokunin skal að jafnaði ekki standa lengur en tvær vikur en ef nauðsyn krefur er heimilt að framlengja hana, að fenginni staðfestingu ráðherra. Ákvörðun samkvæmt þessari grein skal birta í dagblöðum og útvarpi og á vefsíðum Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar.“

Umhverfisstofnun óskar hér með eftir almennum umsögnum varðandi framangreinda framlengingu á takmörkun umferðar um umrædd svæði  fyrir kl. 14:00 í dag til þess að hún geti tekið gildi kl. 14:00 föstudaginn 16. ágúst nk.

Ef óskað er frekari upplýsinga vinsamlegast hafið samband við Davíð Örvar Hansson í síma 8224039 eða sendið fyrirspurn á netfangið Davíð Örvar Hansson, david.hansson@umhverfisstofnun.is