Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Vatnatilskipun

Eitt af mikilvægum verkefnum Umhverfisstofnunar er að hafa umsjón með innleiðingu vatnatilskipunar (Directive 2000/60/EC). Tilskipunin hefur það að markmiði að stuðla að verndun vatns og vistkerfa þess. Samkvæmt tilskipuninni skulu öll lönd Evrópu hafa það sem markmið að allt yfirborðsvatn og grunnvatn sé í góðu ástandi og að ástandið haldist gott. Tilskipunin er einskonar rammi utan um margar aðrar tilskipanir er varða mengun ogverndun vatns. Innleiðing tilskipunarinnar hófst á Íslandi árið 2011 með lögum um stjórn vatnamála.Tilskipunin gildir fyrir straumvötn, stöðuvötn, árósa, strandsjó, grunnvatn og jökla.

Vatnshlot og gerðir

Grunneiningar kerfisins eru svokölluð „vatnshlot“ en vatnshlot eru afmarkaðar stjórnsýslueiningar vatns. Til dæmis getur eitt stöðuvatn verið eitt vatnshlot, eða afmarkaðir hlutar strandsjávar. Þegar vatnshlot hafa verið afmörkuð þá er þeim skipt í svokallaðar „gerðir“, en gerðirnar eiga að endurspegla mismunandi eiginleika vatnshlotanna m.t.t. lífríkis og eðlisefnafræðilegra gæðaþátta.  Strandsjó á Íslandi er skipt upp í fjórar gerðir. Gerðirnar eru mikilvægar til þess að geta metið ástand og gæði vatnshlotanna. Skilgreindar eru viðmiðunaraðstæður fyrir hverja gerð vatnshlota, þannig er hægt að fylgjast með ástandi vatns og hvort að ástandið sé gott eða að versna.

Álag og vatnshlot í strandsjó

Álag á vatn getur verið margskonar, en samkvæmt vatnatilskipun skal skipta vatnshlotum enn frekar niður vegna álags sem á þau er. Dæmi um álag í strandsjó er sjókvíaeldi, skólplosun frá þéttbýlum og frárennsli frá ýmiskonar iðnaði. Álag í strandsjó getur jafnframt verið vegna veiði, efnistöka og efnislosun svo eitthvað sé nefnt.  Nú hefur verið lokið við að fara skipulega yfir þetta álag og gera drög að frekari uppskiptingu vatnshlota. Jafnframt var horft til þess hvort tiltekin svæði væru við eða nálægt friðlýstum svæðum en þau svæði skal vernda sérstaklega. Leiddi vinnan í ljós 22 ný vatnhlot til viðbótar við þau 50 sem höfðu áður verið afmörkuð.  Nýju vatnshlotin dreifast í kringum landið, flest eru þau á Vestfjörðum og Austfjörðum. Afmörkun vatnshlotanna er mjög mikilvægur liður í því að ná utan um það álag sem er til staðar í strandsjó og auðveldar okkur að gæta þeirrar auðlindar sem vatnið okkar er.

Nýju vatnshlotin voru unnin í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnunar sem er ein af samstarfsstofnunum innan stjórnar vatnamála. Hér er hægt að nálgast skýrslu Hafrannsóknastofnunar þar sem hægt er að sjá staðsetningu nýju vatnshlotanna ásamt fleiri mikilvægum upplýsingum.