Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur lokið eftirlitsverkefni með plöntuverndarvörum á íslenskum markaði 2019. Farið var í eftirlit hjá þremur fyrirtækjum sem markaðssetja slíkar vörur með því markmiði að kanna hvort plöntuverndarvörur í sölu séu með leyfi til að vera á markaði og hvort merkingar á þeim séu í samræmi við gildandi reglur. Plöntuverndarvörur eru skordýra-, sveppa- og illgresiseyðar sem notaðir eru í landbúnaði og garðyrkju til að verja uppskeru nytjaplantna fyrir skaðvöldum.

Alls fundust 56 plöntuverndarvörur sem féllu undir umfang eftirlitsins og reyndust 11 vörur af þeim vera með ófullnægjandi merkingar því var tíðni frávika 20%. Stofnunin veitti viðeigandi fyrirtækjum tiltekinn frest til að bregðast við frávikum varðandi merkingar og hafa þau nú brugðist við á fullnægjandi hátt. Í eftirlitinu fannst ein plöntuverndarvara sem ekki var með markaðsleyfi en fyrirtækið sem er ábyrgt hefur nú gripið til viðeigandi aðgerða þannig að varan er nú lögleg á markaði.

Umhverfisstofnun hefur staðið fyrir árlegu eftirliti með plöntuverndarvörum á markaði frá árinu 2014 og hefur tíðni frávika verið nokkuð sveiflukennd, allt frá 65% á árinu 2016 niður í 15% árið 2017. Heilt yfir má segja að þróunin sé í þá átt að frávikum fækkar.

Hafa ber í huga að notkun plöntuverndarvara getur verið hættuleg heilsu manna og umhverfinu ef ekki er rétt með farið. Því er afar mikilvægt að réttar merkingar séu til staðar og að farið sé eftir tilmælum sem þar koma fram.

Hér má nálgast samantekt um verkefnið á vef Umhverfisstofnunar.