Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Hvernig ferðaðist þú í skólann eða vinnuna í morgun? Tókstu strætó, gekkstu eða hjólaðirðu? Eða varstu einn á ferð í bílnum, brennandi jarðeldsneyti? Mættirðu í vinnuna ánægð(ur) með sjálfa(n) þig eða finnst þér að gera mætti betur?

Nú stendur yfir Evrópsk samgönguvika og er tilvalið að huga að ferðavenjum í umhverfislegu tilliti.

Markmið samgönguviku er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.

Hvatning til vinnustaða

Geta má þess að 50% starfsmanna Umhverfisstofnunar eru með samgöngusamning sem skuldbindur starfsfólk til að ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti. Í samgönguviku gefst tækifæri fyrir vinnustaði að ræða og útfæra vistvæna samgöngumáta. Umhverfisstofnun hvetur vinnustaði og stofnanir til að kynna kosti vistvænna samgöngumáta fyrir starfsfólki sínu. Gætu starfsmenn á þínum vinnustað deilt reynslu af því að hjóla, ganga eða taka strætó í og úr vinnu? Væri hægt að fá kynningu á hjólasamgöngum í hádegismat eða á starfsmannafundi? Er hægt að setja upp keppni innanhúss, t.d. hvaða deild kemur oftast með vistvænum hætti til/frá vinnu þessa vikuna eða hvaða deild kemur með frumlegasta hætti til vinnu? Er hægt að loka bílastæðum stofnunarinnar í einn dag?

Endilega virkjið hugmyndaflugið, klæðið ykkur vel og nýtið ykkur Evrópska samgönguviku til þess að upplifa kosti vistvænna samgöngumáta.

Á vef Umhverfisstofnunar getið þið kynnt ykkur vistvænar samgöngur nánar og hér eru allar helstu upplýsingar um samgönguvikuna. Samgönguvikunni lýkur á sunnudag með bíllausa deginum en þá er frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu og Bíllaus ganga verður farin frá Klambratúni. Þá má geta þess að frítt er alla daga ársins í strætó á Akureyri.

Á myndinni sést Steinar Rafn Beck Baldursson mæta til vinnu á reiðhjóli sínu, en hann starfar hjá Umhverfisstofnun á Akureyri.