Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun skilar árlega til ESA skýrslu um brennisteinsinnihald skipaeldsneytis í samræmi við reglugerð nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti. Hingað til lands eru fluttar þrennskonar gerðir skipaeldsneytis, þ.e.a.s.: svartolía, skipadíselolía og skipagasolía og er brennisteinsinnihald þeirra allra vaktað. Ástæðan er sú, að sett hafa verið markmið á Evrópska efnahagssvæðinu um að draga úr losun brennisteins út í andrúmsloftið vegna brennslu eldsneytis en við brunann losnar brennisteinsoxíð sem hefur skaðleg áhrif á bæði heilsu fólks og umhverfið.


Þróun seinustu ára hefur verið sú að innflutningur skipagasolíu hefur verið að aukast, en það er olían sem inniheldur minnst af brennisteini (Mynd 1). Út frá gögnum seinustu ára er hægt að álykta að innflutningur skipadíselolíu sé nokkuð stöðugur. Það er hægt að sjá örlitla línulega minnkun en þar sem halli línunar er svo lítill er ekki hægt að segja hvort svo sé að þessu. Innflutningur svartolíu, sem inniheldur mest af brennisteini, hefur heilt yfir verið að dragast saman síðan 2012. Þessi samdráttur er ekki jafn hraður og aukningin sem hefur verið á innflutningi á skipagasolíunni sem er vegna þess að heildarmagn skipaeldsneytis sem flutt er til landsins hefur verið að aukast milli ára síðan 2016.

Brennisteinsinnihald þeirrar svartolíu sem var í boði hér á landi reyndist alltaf talsvert undir leyfilegum mörkum, en þau eru 3,5% (Mynd 2). Meðalbrennisteinsinnihaldið er hinsvegar sveiflukennt og var á milli 0,98-1,98% á ári frá 2012-2018 og ekki alveg ljóst hvort þróunin  sé í átt til lægra brennisteinsinnihalds á tímabilinu. Þá er breytileikinn milli sendinga mikill, t.d. sveiflaðist brennisteinsinnihaldið allt frá 0,57% upp í 2% í sendingum sem hingað bárust á árinu 2018.

Frá og með 1. janúar 2020 verða alþjóðleg leyfileg mörk fyrir brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti lækkuð niður í 0,5% og það kann að vera áskorun fyrir skipaeigendur að skipta yfir í eldsneyti með svo lágt brennisteinsinnihald. Þá má benda á að mögulegt er að halda sig undir losunarmörkum með því að  nota búnað til hreinsunar á útblæstri í skipunum.

Sulphur content of marine fuels in Iceland 2018