Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Endurmenntun Landbúnaðarháskólans hélt námskeið í handverki og efnisnotkun í þjóðgarðinum Snæfellsjökli um síðustu helgi. Bókleg kennsla fór fram í gestastofu á Malarrifi, en verkleg í Öndverðarnesi. Þar var lagður steinpallur framan við brunn sem nefnist Fálki og hlaðinn grjótstandur undir skilti sem þar stendur.

Í námskeiðinu var lögð áhersla á stað- og hefðbundið handverk og hvernig það getur nýst við landmótun og uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum,  svo og hvernig viðhalda megi víðernis- og náttúruupplifun með réttu efnisvali, yfirbragði og handverki. Kennarar voru Strandamennirnir Gunnar Óli Guðjónsson og Guðjón Kristinsson en þeir eru þjóðþekktir grjóthleðslumenn.

Að sögn þjóðgarðsvarðar, Jóns Björnssonar, gekk námskeiðið mjög vel og er fengur að fá slíkt námskeið á svæðið. Það styrkir þjóðgarðinn í nálgun sinni við uppbyggingu innviða, ekki síst þar sem staðarefni er nýtt og fellt að umhverfinu, með jákvæðari upplifun og aukinni ánægju gesta.

Þjóðgarðurinn er í umsjá Umhverfisstofnunar.