Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með málaflokki erfðabreyttra lífvera sbr. lög nr. 18/1996 þar sem stofnunin veitir m.a. leyfi fyrir afmarkaðri notkun erfðabreyttra lífvera og sér um eftirlit með þeirri starfsemi. Í 5. gr. laganna segir einnig að stofnunin skuli þar að auki beita sér fyrir fræðslu um erfðabreyttar lífverur og áhrif þeirra á umhverfið í samráði við ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur sem er skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra.

Með það að leiðarljósi tók Umhverfisstofnun þátt í málstofu á Líffræðiráðstefnunni 2019 sem var haldin 17.-19. október sl. Málstofan var haldin í húsnæði deCODE fimmtudaginn 17. október í samstarfi við ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur. Formaður ráðgjafanefndar, Pétur Henry Petersen, hélt erindi undir yfirskriftinni Erfðabreyttar lífverur–ný tækifæri eða nýjar ógnir. Sérfræðingur  Umhverfisstofnunar, Rakel Kristjánsdóttur, flutti erindið Umsóknir og leyfisveitingar. Annar nefndarmaður ráðgjafanefndar, Skúli Skúlason, hélt erindið Erfðabreyttar lífverur: vist- og siðfræðilegar áskoranir.

Erindi Umhverfisstofnunar fjallaði um leyfisveitingar fyrir afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera sem stofnunin veitir, lagaumhverfi erfðabreyttra lífvera á Íslandi og stöðu málaflokksins í Evrópu.

Að erindum loknum var haldið pallborð þar sem umræður um erfðabreytingar og notkun erfðabreyttra lífvera áttu sér stað. Málstofan var mjög vel sótt og þykir Umhvefisstofnun ánægjulegt að hafa tekið þátt í vel heppnuðum fundi þar sem fór fram góð umræða um mikilvægan málaflokk.

Til upplýsinga eru í gildi alls 16 leyfi fyrir afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera (örvera og annarra lífvera) sem Umhverfisstofnun hefur gefið út og sér um eftirlit með. Allar upplýsingar um þau leyfi má finna hér á undirsíðum leyfishafa á vefsíðu stofnunarinnar: https://www.ust.is/atvinnulif/mengandi-starfsemi/starfsleyfi/erfdabreyttar-lifverur/.

Umhverfisstofnun vill vekja athygli á því að öll málefni erfðabreyttra matvæla heyra undir Matvælastofnun og finna má greinagóðar upplýsingar um þann málaflokk á vefsíðu þeirra hér: http://www.mast.is/matvaeli/almennar-upplysingar/erfdabreytt/.