Stök frétt

Á þriggja ára fresti fer alþjóðaráðstefna landvarða fram. Landverðir úr öllum heimshornum koma þá saman, ræða mikilvæg mál og bera saman bækur. 12-16. nóvember sl. fór níunda alþjóðaráðstefnan fram og var hún haldin í Nepal, í nágrenni við Chitwan þjóðgarðinn.

Íslenskir landverðir sóttu fundinn  en ráðstefnan var sú fjölmennasta hingað til. 550 landverðir frá 70 löndum komu saman og eitt af sjö þemum ráðstefnunnar var „konur í landvörslu“. Aldrei áður hafa jafn margir þátttakendur verið konur og nú. Hlutfall þeirra var 38% og fluttu þær um 40% af fyrirlestrunum.

Héðan frá Íslandi fóru alls 13 landverðir á ráðstefnuna en þar af voru 10 konur þannig að kynjahlutfallið var nokkuð frábrugðið því sem gengur og gerist.  Á Íslandi hefur hlutfall kvenna í landvörslu ávallt verið hærra en karla, þótt aðra sögu sé að segja utan landsteinanna. Það vakti athygli hinna íslensku ráðstefnugesta í Nepal þegar fram kom í fyrirlestri að með því að auka hlutfall kvenna í landvörslu hafði dregið úr spillingu samkvæmt rannsóknum.

Verja 20% af jörðinni!

Í nokkrum fyrirlestranna var rætt um mikilvægi þess að landverðir vinni náið með samfélaginu og íbúum svæðanna sem njóta verndar. Mannfólkið er hluti af náttúrunni og í mörgum tilfellum er lífsviðurværi íbúa í og við náttúruverndarsvæði. Með því að byggja upp góð samskipti og samstarf næst betri árangur í náttúruvernd. í heiminum eru tæplega 240.000 náttúruverndarsvæði, um 20% alls landsvæðis. Landverðir um allan heim standa því vörð um rúmlega 20% landsvæðis á jörðinni.

Sameiginleg ástríða

Hákon Ásgeirsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar og einn landvarðanna sem fóru utan til Nepal á ráðstefnuna, segir að störf landvarða séu einkar mikilvæg nú þegar gengur hratt á ósnortna náttúru.

„Fjöldi dýra og plantna eru í útrýmingarhættu og í sumum tilvikum eru landverðir eina vörnin gegn því,“ segir Hákon.

En baráttan kostar fórnir. Á einu ári hafa 158 landverðir látið lífið við störf við verndun náttúru og dýralífs.  Landverðir láta þó ekki deigan síga, enda eiga þeir það sameiginlegt um allan heim að sögn Hákons að hafa ástríðu fyrir verndun náttúru og dýralífs. Þess vegna velja þeir sér þennan starfsvettvang, hvað sem það kostar.

Íslenski landvarðahópurinn kvaddi að sögn Hákons Nepal og stórkostlega þjóðgarða landsins með þakklæti að fá að upplifa ósnortna náttúru, fegurð og gestrisni heimamanna.

Sjá: 9th World Ranger Congress: Myndband

Myndin er af fulltrúum Íslands í Nepal.