Stök frétt

Í ár er spáð hægum vindi og úrkomulausu veðri um mestallt landið sem leiðir líkum að því að svifryksmengun verði talsverð ef flugeldanotkun verður svipuð og a fyrri árum.

Styrkur svifryks um áramót ræðst mikið af veðri, ef vindur er undir 5 m/s má búast við mjög mikilli mengun. En skothegðun almennings ræður líka miklu um það hvernig styrkur mengunar þróast.

Á meðfylgjandi línuriti má sjá hvernig styrkur svifryks var að breytast á mælistöðinni við Dalsmára í Kópavogi frá hádegi á gamlársdag til hádegis á nýársdag áramótin 2017-2018. Brennur verða ekki haldnar í ár vegna samkomutakmarkana en línuritið gefur góða mynd af mengun eftir áramótaskaupið þegar hægur vindur ríkir.

Styrkurinn fer að aukast smávegis um kl 16 en lækkar svo aftur um það leyti sem flestir eru að borða kvöldmat. Eftir matinn fer fólk aftur að skjóta upp flugeldum og um kl 20:30 er kveikt í flestum brennum og á þeim tíma er líka skotið upp meira af flugeldum. Mengunarstyrkurinn eykst fram að því að áramótaskaupið byrjar en þá snarlækkar styrkurinn. Um leið og skaupið klárast fer fólk aftur að skjóta upp og hæsti styrkurinn er að mælast skömmu eftir miðnætti. Ef lítill vindur er næst mengunin ekki að þynnast og getur varið fram eftir nóttu.

Svifryk er heilsuspillandi og getur ýtt undir versnandi einkenni ýmissa sjúkdóma. Aldraðir og fólk með öndunarfærasjúkdóma finnur verulega fyrir mikilli loftmengun. Börn eru líka sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki og sérstaklega ber að nefna að vegna COVID19 eru fleiri sem eru viðkvæmri fyrir svifryki en áður. Því má segja að stór hluti Íslendinga séu mjög viðkvæmir fyrir þessari mengun og upplifa neikvæð einkenni vegna hennar.

Skjótum upp færri flugeldum þetta árið og öndum léttar.