Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Þann 2. mars 2021 undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, friðlýsingu Látrabjargs í Vesturbyggð.

Látrabjarg er eitt stærsta fuglabjarg í Evrópu og flokkast sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og þar er að finna fjölskrúðugt fuglalíf sem byggir m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði og búsvæðum fyrir fugla. Á svæðinu er mesta sjófuglabyggð landsins þar sem meðal annars er stærsta þekkta álkubyggð í heimi. Á svæðinu verpa margar tegundir fugla, þar á meðal tegundir sem flokkast sem ábyrgðartegundir Íslendinga og eru á válista. Lífríki í sjó er afar fjölbreytt og mikilvægt fæðusvæði varpfugla í bjarginu.

Náttúrufegurð svæðisins er mikil og gróðurfar einkennist af grasmóum og klettagróðri. Við Látrabjarg er einnig að finna menningarminjar auk þess sem jarðsaga Vestfjarða speglast í bjarginu. Vestast á Látrabjargi eru Bjargtangar sem eru jafnframt vestasti oddi Íslands.

Í fyrstu náttúruverndaráætlun Alþingis (2004-2008) var samþykkt ályktun um að Látrabjarg og nágrenni yrði friðlýst sem búsvæði fugla en Umhverfisstofnun hefur unnið að undirbúningi friðlýsingarinnar frá árinu 2011 með samtali við landeigendur, sveitarfélag og fleiri.

Friðlýsta svæðið er nú formlega komið í umsjón Umhverfisstofnunar sem sinnir landvörslu, umsjón og rekstri á svæðinu til framtíðar.