Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Mynd: Bas Emmen - Unsplash
Síðastliðin þrjú ár hefur Umhverfisstofnun framkvæmt eftirlit með flutningi úrgangs milli landa. Eftirlitið miðar að því að tryggja eftirfylgni reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs sem var innleidd með reglugerð 822/2010 um flutning úrgangs á milli landa. Þá var sett breytingareglugerð þar sem aðildarríkjum ESB og löndum EES var gert að sinna virku eftirliti með flutningnum og skal sú vinna byggja á eftirlitsáætlun sem sett er til þriggja ára í senn. 

Niðurstöður eftirlits með flutningi úrgangs milli landa fyrir árið 2020 leiddu ekki í ljós frávik, en þó kom upp eitt mál um grun um brot á reglum varðandi útflutning skipa til endurvinnslu. Það mál er enn í rannsókn hjá íslenskum stjórnvöldum.
Á undanförnum þremur árum hafa ekki komið fram önnur alvarleg frávik eða ólöglegir flutningar á úrgangi til eða frá landinu. Það frávik sem komið hefur reglulega upp í eftirliti er að þartilgert fylgiskjal (Annex VII) með útflutningi endurvinnsluefna vantar. Fjöldi frávika af þessu tagi dróst þó verulega saman á eftirlitstímabilinu sem bendir til þess að eftirlitið hafi skilað sér í aukinni þekkingu úrgangsmeðhöndlunaraðila á skyldum er tengjast útflutningi úrgangs. 
Umhverfisstofnun hefur jafnframt gefið út nýja eftirlitsáætlun fyrir árin 2021 til 2023 um eftirlit með flutningi úrgangs á milli landa. Áætlunin er mikilvægt skref í að tryggja rétta meðhöndlun á þeim úrgangi sem fellur til. Markmið eftirlitsins er að enginn ólöglegur flutningur úrgangs eigi sér stað til og frá Íslandi og að með flutningum sé verið að tryggja ábyrga meðhöndlun úrgangsins.
 
Hér má nálgast niðurstöður eftirlits með flutningi úrgangs milli landa og eftirlitsáætlanir, en frekari upplýsingar má nálgast hjá teymi græns samfélags.