Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Mynd: Snorri Leifsson

Í gær fimmtudaginn 27. maí var talsvert jarðvegsfok víða um land. Mistrið varð einna þéttast á suðurlandi og sunnanverðu vesturlandi. Svifryk mældist mjög hátt á mörgum mælistöðum á höfuðborgarsvæðinu og á nokkrum mælistöðum fór styrkur svifryks upp í nokkur hundruð míkrógrömm í rúmmetra (µg/m3). Þetta var líklega eitt mesta jarðvegsfok sem sést hefur í mörg ár hér sunnan og vestanlands. Fara þarf aftur til ársins 2010 þegar eldgosið í Eyjafjallajökli var í gangi til að finna hærri gildi.

Einn af þeim stöðum sem fauk úr í gær var svæðið vestan við Landeyjarhöfn. Það svæði er einn af þeim stöðum á landinu sem kalla mætti heitan reit þegar kemur að jarðvegsfoki. Þetta má sjá mjög vel á meðfylgjandi ljósmynd sem Snorri Leifsson flugstjóri hjá Icelandair tók í gær um kl 15:30.

Þegar styrkur svifryks er komin í nokkur hundruð míkrógrömm er ekki hægt að mæla með því að vera í mikilli líkamlegri áreynslu utandyra. Sérstaklega ekki fyrir fólk sem er með undirliggjandi hjarta eða lungnasjúkdóma. Ekki er heldur hægt að mæla með því að ungabörn sofi út í vagni þegar ástandið er svona.

Ekki eru svifryksmælar um allt land en hægt að styðjast við skyggni til að fá gróft mat á styrk svifryks. Hér er hlekkur á myndband sem sýnir gróflega samband skyggnis af völdum öskufalls/öskufoks og styrk svifryks. Myndirnar komu frá vefmyndavél Mílu sem staðsett var á Hvolsvelli og var beint að Eyjafjallajökli meðan á gosinu stóð. Skammt frá vefmyndavélinni var svifryksmælir frá Umhverfisstofnun sem gerði kleift að bera saman skyggni við styrk svifryks. Áfram er spá hvassri suðaustanátt í dag og því má búast við sambærilegu ástandi í dag, jafnvel verra þar sem vindhraði er meiri núna. Í nótt er spáð rigningu sem ætti að slá verulega á jarðvegsfokið.