Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Einstaklingar sem annast verkefni varðandi búnað sem inniheldur flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, svokölluð F-gös, þurfa að hafa til þess gilda vottun. 
Alls er hægt að afla sér vottunar fyrir 5 mismunandi flokka eftir tegund vinnunnar og/eða tegund búnaðar innan EES/ESB svæðisins. Tækniskólinn fékk fyrstur tilnefningu sem matsaðili fyrir einstaklinga hér á landi og býður hann uppá þjálfun og mat fyrir flokkana „Fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað, og kælieinigar í kælibifreiðum og kælivögnum“ og „Endurheimt F-gasa úr loftræstibúnaði í vélknúnum ökutækjum“. Þeir einstaklingar sem standast mat skólans geta sótt um vottun til Umhverfisstofnunar fyrir ofangreinda flokka.

Nú hefur IÐAN fræðslusetur bæst í hópinn sem matsaðili, en umhverfis- og auðlindaráðuneytið tilnefndi fræðslusetrið nýlega sem slíkan fyrir einstaklinga í flokknum: „Fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað, og kælieinigar í kælibifreiðum og kælivögnum“. Að auki hefur IÐAN hlotið tilnefningu sem matsaðili fyrir fyrirtæki sem þjónusta búnað sem inniheldur F-gös fyrir þennan flokk og er þetta í fyrsta sinn sem slík tilnefning er veitt. Einstaklingar sem standast mat hjá IÐUNNI og fyrirtæki hafa fengið úttekt hennar geta nú sótt um tilheyrandi vottun hjá Umhverfisstofnun er varðar vinnu með flokkinn „Fastan kæli-, loftræsti- og varmadælubúnað, og kælieinigar í kælibifreiðum og kælivögnum“.

Vottunin er gild í 5 ár og gildir innan EES/ESB svæðisins og eru skírteinin gefin út bæði á íslensku og ensku. Vottun fyrirtækja og einstaklinga er ætluð til að stuðla að öruggri meðhöndlun F-gasa með tilliti til verndunar umhverfisins en þau eru öflugar gróðurhúsalofttegundir sem hafa sumar mjög háan hnatthlýnunarmátt eða allt að 23.000 sinnum meiri en koltvísýringur.

Nánari upplýsingar um vottun fyrirtækja.
Nánari upplýsingar um vottun einstaklinga.