Stök frétt

Miðvikudaginn 20. október kl. 12:15 fer fram opinn fyrirlestur um skaðleg efni á heimilinu. Sérfræðingar Umhverfisstofnunar fara yfir herbergin á heimilinu, skoða hvaða efni leynast þar og hvað við getum gert til að minnka neikvæð áhrif þeirra.  

Efni eru óaðskiljanlegur hluti af okkar daglega lífi. Rannsóknir hafa sýnt fram á að sum þeirra geta verið skaðleg heilsu og umhverfi. Efnin geta meðal annars haft áhrif á hormónastarfsemi, taugakerfi, nýru, frjósemi og verið ofnæmis- og krabbameinsvaldandi. 

Skaðleg efni finnast til dæmis í:  

  • Hreinsiefnum 
  • Húsgögnum  
  • Borðbúnaði 
  • Málningu
  • Leikföngum
  • Raftækjum
  • Fatnaði
  • Skartgripum 
  • Snyrtivörum

Dæmi um varasöm efni á heimilinu eru arsenik, blý, brómeruð eldvarnarefni, þalöt, paraben og innkirtlatruflandi efni.

Í opna fyrirlestrinum munu þau Björn Gunnlaugsson, Bergdís Björk Bæringsdóttir, Fífa Konráðsdóttir, Hafdís Inga Ingvarsdóttir, Helga Ösp Jónsdóttir og Kristín Kröyer, sérfræðingar í teymi efnamála hjá Umhverfisstofnun, leiða okkur í gegnum herbergin á dæmigerðu heimili. Þau munu skoða algenga hluti í hverju herbergi og hvaða skaðlegu efni geta leynst í þeim.

Sérfræðingarnir okkar munu gefa góð ráð, fjalla um hvað þarf að varast og hvaða valkosti við höfum sem neytendur. Í lok fyrirlestursins verður opnað fyrir spurningar.

Hluti af stefnu Umhverfisstofnunar er að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir verndun á heilnæmu umhverfi. Í því felst að stuðla að öruggri og ábyrgri notkun efnavara og að lágmarka notkun skaðlegra efna.

Ekki missa af áhugaverðum fyrirlestri um umhverfismál á mannamáli!

Viðburðurinn á Facebook

 

Nánar um: