Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir þrjár tillögur að breytingum á starfsleyfum þriggja olíubirgðastöðva Olíudreifingar ehf. Tillögurnar snúa að breytingum á gildistíma.

Þær stöðvar sem um ræðir eru á Seyðisfirði, Höfn í Hornafirði og í Grímsey. 

Breytingar þessar koma til vegna þess að í eldri reglugerð um starfsleyfi Umhverfisstofnunar var í gildi ákvæði reglugerðar nr. 785/1999, sem takmarkaði gildistíma starfsleyfis við fjögur ár, ef ekki væri í gildi deiliskipulag sem gerði ráð fyrir viðkomandi starfsemi. Í umsókn rekstraraðila um breytingu var vísað í að þegar reglugerð nr. 550/2018 tók við hlutverki reglugerðar nr. 785/1999, sem var felld úr gildi, féllu niður kröfur um fjögurra ára gildistíma þegar svona stendur á.

Olíudreifing ehf. fer í umsókninni fram á að gildistími starfsleyfanna verði samræmdur við önnur starfsleyfi sem gefin voru út á sama tíma fyrir olíubirgðastöðvar þar sem deiliskipulag var til staðar og telur Umhverfisstofnun að rétt sé að fallast á þetta sjónarmið.

Aflað var umsagna um það hjá viðkomandi skipulagsfulltrúum og byggingarfulltrúum viðkomandi sveitarfélaga sbr. kröfur í reglugerð nr. 550/2018 og í því ferli kom ekki fram andstaða við að samræma gildistímann.

Ef athugasemdir eru við breytingatillögurnar skulu þær vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun (ust@ust.is) og merktar með eftirfarandi hætti:
Athugasemdir varðandi stöðina á Seyðisfirði skulu merktar UST202110-194, athugasemdir varðandi stöðina á Höfn í Hornafirði skulu vera merktar UST202110-192 og athugasemdir skulu merktar UST202110-193 ef þær snúa að stöðinni í Grímsey. Umsagnir verða birtar við útgáfu nema annars sé óskað. Greinargerð mun fylgja starfsleyfisbreytingu við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Tillögurnar ásamt umsóknum rekstraraðila verða aðgengilegar á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 6. desember 2021 til og með 4. janúar 2022. Frestur til að senda umsögn um breytingartillögurnar er til og með 4. janúar 2022.

Tengd skjöl:
Umsókn um breytingu - Olíudreifing, Grímsey
Tillaga að breytingu - Olíudreifing Grímsey
Umsókn um breytingu - Olíudreifing, Höfn
Tillaga að breytingu - Olíudreifing, Höfn
Umsókn um breytingu - Olíudreifing, Seyðisfirði
Tillaga að breytingu - Olíudreifing, Seyðisfirði