Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun vill nýta umræðuna um friðlýsingu Dranga til þess að skapa meiri vitund um hvernig friðlýsingum er háttað. Tortryggni í garð ferlisins sýnir að full þörf er á að upplýsa vel um vinnubrögð og hvers konar samráð fer fram áður en mælt er með friðlýsingu. 

Fjögur ár í undirbúningi

Það er skiljanlegt að fyrstu viðbrögð einhverra séu að spyrja hvort ákvörðunin um að friðlýsa Dranga hafi verið tekin í flýti, í ljósi þess að afgreiðslan átti sér stað rétt fyrir nýja verkaskiptingu ríkisstjórnarinnar í kjölfar endurnýjunar stjórnarsamstarfsins. 

Málið var í vinnslu frá árinu 2018 eða í tæplega fjögur ár. Fresti til athugasemda lauk 25. nóvember sl. Degi síðar lauk undirbúningi endanlega með afgreiðslu samstarfshópsins. Þá hafði samstarfshópurinn farið yfir erindi þeirra sem gerðu athugasemdir og var sammála um að ekki væri ástæða til að gera efnislegar breytingar á tillögunni. Því var ekkert eftir annað en að vísa tillögunni til ráðherra til lokaákvörðunar.

Við undirbúning friðlýsingarinnar var tekið tillit til þess að orkukosturinn Hvalárvirkjun væri í nýtingarflokki. Á síðasta ári voru þær breytingar gerðar á náttúruverndarlögum að orðunum „að jafnaði“ var bætt fyrir framan fjarlægðarmörk skilgreiningarinnar á óbyggðu víðerni. Eftirleiðis er hægt að friðlýsa svæði sem uppfyllir öll skilyrði sem óbyggt víðerni þótt mannvirki séu til staðar í innan við 5 km fjarlægð frá mörkum svæðisins enda hafi það ekki áhrif á verndargildi svæðisins en þó ber að meta hvert tilvik fyrir sig. Ekki er því talið að friðlýsing Dranga standi fyrirhugaðri Hvalárvirkjun í vegi.

Friðlýsingar eru samstarfsverkefni

Samstarfshópur er ávallt skipaður um friðlýsingarverkefni. Í honum eiga sæti fulltrúar landeigenda, viðkomandi sveitarfélags, Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og eftir atvikum annarra fagstofnana. Þá eru helstu hagsmunaaðilar á hverju svæði upplýstir sérstaklega um verkefnið. Einnig er almenningi gefinn kostur á að koma ábendingum á framfæri. 

Ferlið er því gegnsætt og samráð víðtækt. 

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar er hægt að nálgast upplýsingar um þau svæði sem eru í undirbúningsferli friðlýsinga, hvar þau eru í ferlinu auk annarra upplýsinga um svæðin. Einnig er að finna upplýsingar um þegar friðlýst svæði. 

Umhverfisstofnun vonast til að eiga áfram gott samstarf við alla hagsmunaaðila og aðra sem vilja láta sig málin varða. Það er enda afar mikilvægt að skapa traust á því að vel sé að verki staðið. Umræðan nú skapar tækifæri til þess.