Stök frétt

Hérna er Rafn Helgason, starfsmaður í teymi losunarbókhalds, kominn vestur til Ísafjarðar til vinnu. Reglubundin störf Rafns eru útreikningar á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, en þeirri vinnu er almennt hægt að sinna í hvaða landsfjórðungi sem er. Aðspurður segist Rafn mjög ánægður með þann möguleika að geta unnið utan höfuðborgarinnar.

„Já tengdafjölskyldan er hérna fyrir vestan og þess vegna er frábært að geta komið hingað yfir nokkra daga og jafnvel vikur á hverju ári og geta unnið á skrifstofu Umhverfisstofnunar. Ekki skemmir fyrir að hérna sé Hornstrandastofan samtengd skrifstofunni og fjölskyldan getur komið og heimsótt vinnuna og skoðað sýninguna. Mér finnst alveg ómetanlegt að hafa þetta frelsi að geta farið með fjölskyldunni í aðra bæi og unnið þar með öðrum samstarfsfélögum.“

En hvernig hefur þetta áhrif á starfið?

„Þetta hefur í raun bara jákvæð áhrif á starfið mitt. Mér finnst gaman að hitta nýja samstarfsfélaga og vinna í nýju umhverfi. Verkefnin mín eru þannig að ég er oftast að vinna í Excel og því get ég ferðast með vinnuna mína, svo framarlega sem ég hef aðgengi að skrifborði og skjáum. Það er í boði á öllum starfsstöðvum Umhverfisstofnunar sem eru staðsettar út um allt land nánast.“

Mynd: Rafn skoðar sýninguna í Hornstrandastofu ásamt dóttur sinni. 

 

Tengt efni: