Stök frétt

Frá setningarhátíð Hjólað í vinnuna 2022. Frá vinstri: Andri Stefánsson, Dagur B. Eggertsson, Willum Þ. Þórsson, Jón G. Jónsson, Ingvar Ómarsson og Sigrún Ágústsdóttir / ÍSÍ.

Hjólað í vinnuna átakið er hafið. Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, tók þátt í setningarhátíð Hjólað í vinnuna í Laugardalnum þann 4. maí sl. Markmið Hjólað í vinnuna er að hvetja fólk til þess að hjóla og velja þannig umhverfisvænar, heilsusamlegar og hagkvæmar samgöngur.

Við setningarhátíðina tóku einnig til máls Andri Stefánsson, framkvæmdarstjóri ÍSÍ, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu og Ingvar Ómarsson, hjólreiðakappi. 

 

Myndband: Stjórnendur Umhverfisstofnunar, Samgöngustofu og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands hjóla saman til vinnu og velja þannig umhverfisvænar, heilsusamlegar og hagkvæmar samgöngur / Umhverfisstofnun.

Hjólreiðar hluti af orkuskiptum

Við setningarhátíðina sagði Sigrún frá því að það væri sérstaklega skemmtilegt að setja Hjólað í vinnuna daginn eftir Loftslagsdaginn. „Það er partur af orkuskiptum að nota hjólið, þær minnka líka svifryk og það er stórt heilsumál. Um leið og við gerum okkur gott erum við einnig að gera umhverfinu gott“ sagði Sigrún. 

Fimm lið frá Umhverfisstofnun

Starfsfólk Umhverfisstofnunar tekur þátt í Hjólað í vinnuna af miklum áhuga. Fimm lið á vegum stofnunarinnar eru skráð til leiks og það verður spennandi að fylgjast með árangrinum. 

Um Hjólað í vinnuna

Heilsu- og hvatningarverkefnið Hjólað í vinnuna hefur nú verið sett í tuttugasta sinn. Það stendur yfir í þrjár vikur frá 4. – 24. maí 2022. Á þeim tíma eru landsmenn hvattir til að hreyfa sig og nýta sér heilsusamlegar, umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur með því að hjóla, ganga eða nota annan virkan ferðamáta.

Verkefnið er skipulagt af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ). 

 

Mynd: Um leið og við gerum okkur gott erum við einnig að gera umhverfinu gott“ sagði Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, við setningu Hjólað í vinnuna 2022 / ÍSÍ.

 

Tengt efni: