Stök frétt

Mynd: Formleg opnun á Gíg í Mývatnssveit þann 30. maí 2022.

Gígur - nýtt sameiginlegt húsnæði Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs, Landgræðslunnar og Náttúrufræðirannsóknarstöðvarinnar í Mývatnssveit (RAMÝ) á Skútustöðum í Mývatnssveit var opnað þann 30. maí sl. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, orku- og loftslagsráðherra, var viðstaddur og opnaði húsnæðið formlega. 

Gígur mun hýsa sameiginlega gestastofu Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem finna má upplýsingar og sýningu um verndarsvæði Umhverfisstofnunar á N-Austurlandi og Þjóðgarðinn.

Húsnæði Gígs stendur við bakka Mývatns við Skútustaðagíga, innan verndarsvæði Mývatns og Laxár með útsýni yfir vatnið og býður staðsetning þess upp á einstakt tækifæri til þess að upplýsa gesti um lífríki og náttúru svæðisins.

Gígur er spennandi starfsstöð og vettvangur til að efla og styrkja náttúruvernd, nýsköpun og byggð á svæðinu.

Í framtíðinni er gert ráð fyrir að Gígur muni einnig nýtast fyrir:

  • Rannsóknarsetur á sviði hugvísinda í sveitarfélagi Suður-Þingeyjarsýslu
  • Skútustaðahrepp til þess að ýta undir atvinnu og nýsköpun í samfélaginu
  • Starfsfólk í opinberum störfum án staðsetningar

Ríkið festi kaup á Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit á síðasta ári. Áður tilheyrði húsnæðið barnaskólanum í sveitinni. Í vor lauk fyrsta áfanga í framkvæmdum, húsnæðinu sem hýsir skrifstofurými stofnanna.

Mynd: Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, orku- og loftslagsráðherra, opnaði húsnæðið formlega. Með honum á myndinni eru Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar og Ingibjörg Halldórsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs.