Stök frétt

Hvalfjörður / Jón Helgason

Styrkur loftkennds flúors og flúors í svifryki jókst á milli ára á loftgæðastöðinni við Kríuvörðu í Hvalfirði samkvæmt niðurstöðum Umhverfisvaktar iðnaðarsvæðisins á Grundartanga fyrir árið 2021. Meðalstyrkur flúors á loftgæðastöðinni, á vaxtartíma gróðurs, mældist yfir mörkum sem sett eru fram í starfsleyfi Norðuráls. Styrkurinn er þó innan skilgreindra heilsuverndarmarka og því ekki um að ræða hættu fyrir heilsu fólks að mati stofnunarinnar. Mælingar á öðrum stöðvum voru innan starfsleyfismarka. Niðurstöður umhverfisvöktunar og eftirlits Umhverfisstofnunar voru kynntar á opnum kynningarfundi í Hvalfirði þann 14. júní sl . 

Meðalstyrkur loftkennds flúors mældist hæstur 0,76 µg/m3 (míkrógrömm á rúmmetra) á tímabilinu apríl til september. Umhverfismörk Norðuráls fyrir flúoríð utan þynningarsvæðis eru 0,3 µg/m3. og mörk fyrir heildarmagn flúors eru 0,4 µg/m3  af flúoríði að meðaltali yfir tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert. 

Innri mælingar Norðuráls sýndu ekki aukna losun flúors frá álverinu á þessu tímabili. Mælingar á öðrum loftgæðastöðvum utan þynningarsvæðis sýndu óverulega hækkun og innan viðmiðunarmarka. Mælingar í gróðri og yfirborðsvatni utan þynningarsvæðis sýndu einnig hækkuð gildi á flúor, en innan viðmiða.

Umhverfisstofnun skráði frávik vegna styrks flúors í andrúmslofti á árinu 2020 og hefur Norðurál þegar gripið til aðgerða vegna þess. Norðurál hefur einnig brugðist við aukningu ársins 2021 með auknum mælingum. 

Ekki liggur ljóst fyrir hver orsök aukningarinnar er en Umhverfisstofnun mun áfram fylgjast náið með niðurstöðum vöktunarmælinga og losunar flúors og miðla frekari upplýsingum þegar þær liggja fyrir.

Nánari upplýsingar um flúor og viðmiðunarmörk þess

Flúor er gastegund sem losnar út í andrúmsloftið m.a. við eldgos og framleiðslu á áli. Flúorinn hleðst upp í gróðri, að hluta til gengur hann inn í vefi plöntunnar og að hluta situr hann utan á gróðrinum. Grasbítar sem nærast á flúorríku fóðri og vatni geta orðið fyrir áhrifum flúormengunar sem koma þá einna helst fram í tönnum og beinum. 
Í starfsleyfi Norðuráls eru eftirtalin ákvæði um losun og styrk flúors:

a) Losunarmörk, magn heildarflúors í útblásturslofti (hreinsuðu gasi frá kerum og ræstilofti frá kerskála) skal ekki vera yfir:

  • mánaðarmeðaltal ekki yfir 0,7 kg F / tonn framleitt ál
  • ársmeðaltal ekki yfir 0,47 kg F / tonn framleitt ál

b) Umhverfismörk, styrkur flúors í andrúmslofti utan skilgreinds þynningarsvæðis skal ekki vera yfir 0,3 µg/m3 andrúmslofts, og heildarflúor skal ekki vera yfir 0,40 µg/m3 reiknað sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september.

Umhverfisvöktun svæðisins á Grundartanga fer fram samkvæmt umhverfisvöktunaráætlun sem gerð er samkvæmt starfsleyfum fyrirtækjanna á svæðinu og samþykkt er af Umhverfisstofnun. Þau fyrirtæki sem taka þátt í umhverfisvöktuninni eru Elkem Ísland, Norðurál Grundartanga og Alur Álvinnsla.

Á Grundartanga eru framkvæmdar bæði innri mælingar af rekstraraðilum sjálfum, og ytri mælingar sem framkvæmdar eru af þriðja aðila fyrir umhverfisvöktunina. Flúor er mælt árlega eða tíðar á eftirfarandi stöðum: í rjáfri álversins, í háfum, í andrúmslofti utan þynningarsvæðis (þrjár mælistöðvar), í ferskvatni, sjó við flæðigryfjur, grasbítum og í gróðri á svæðinu. Lífríki sjávar, hey, mosar og fléttur er mælt sjaldnar en þó reglulega samkvæmt vöktunaráætlun. Norðurál sendir Umhverfisstofnun niðurstöður mælinga fyrir útblástur fyrir hvern ársfjórðung jafnskjótt og þær tölur liggja fyrir. Ársfjórðungsskýrslur rekstraraðila liggja fyrir á heimasíðu Umhverfisstofnunar.  

Ekki eru til ákvæði um styrk flúors í andrúmslofti í reglugerðum, en í starfsleyfi eru umhverfismörk fyrir flúor byggð á umfjöllun í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um mengun sem geti skaðað gróður. Almenn viðmið eru að skemmdir geti komið fram í viðkvæmum gróðurtegundum við um 30-100 µg/g. Viðmiðunarmörk um styrk flúors í heilfóðri grasbíta eru lægst sett við 30 µg/g fyrir sauðfé á mjólkurskeiði, en hæsti styrkur flúors í grasi mældist 23,2 µg/g. Þolmörk sauðfjár og hrossa fyrir flúor hafa ekki verið skilgreind. Heilsufar hrossa og sauðfjár er vaktað með reglubundnum hætti skv. samþykktri vöktunaráætlun iðjuveranna á Grundartanga. 

Hvað varðar áhrif flúors á fólk er vel þekkt að flúor í hóflegum skömmtum bætir tannheilsu og það er þess vegna að finna í mörgum tegundum af tannkremi. Flúor er auk þess í margvíslegri fæðu, einkum sjávarfangi og ostum og í einhverjum tilfellum er flúor bætt í drykkjarvatn. Ofneysla hefur hins vegar skaðleg áhrif þar sem það dregur úr styrk beina og veldur skemmdum á tönnum. 

Upptaka frá kynningarfundi 14. júní 2022