Umhverfisstofnun, Orka náttúrunnar, Verkís og Landbúnaðarháskóli Íslands standa fyrir vinnustofu fyrir náttúrumiðaðar lausnir fyrir vatnavistkerfi dagana 5. og 6. september 2022.
Samfélagslegar áskoranir vegna breytinga á umhverfi og loftslagi kalla á breytta nálgun lausna við umhverfis- og auðlindanýtingu. Náttúrumiðaðar lausnir eru ein þeirra lausna og felast í aðgerðum til að vernda, nýta á sjálfbæran hátt, endurheimta náttúruleg og breytt vistkerfi með það að markmiði að vernda lífbreytileika og auka velferð fólks.
Markmið vinnustofunnar er að kynna fyrir þátttakendum náttúruvænar lausnir við framkvæmdir í vatnavistkerfi.
Fyrri daginn verða almennar kynningar um náttúrumiðaðar lausnir, staða mála á Íslandi og verkefnum frá Noregi og Bretlandi. Eftir hádegismat verður boðið upp á þrjá vinnuhópa þar sem farið verður yfir hagnýtar náttúrumiðaðar lausnir við framkvæmdir í árfarvegum, í votlendi og við endurheimt á landi.
Þann 6. september verður farið í vettvangsferð á nokkra staði þar sem náttúrumiðuðum lausnum hefur verið beitt og hægt verður að ræða þær útfærslur við sérfræðinga.
Vinnustofan er haldin í samstarfi við breska sérfræðinga á sviði endurheimtar vatnavistkerfis: CBEC – Restoration specialists for the water environment og Salix – Building with nature og McGowan Environmental Engineering - Naturally Different.
Vinnustofan er fyrir alla áhugasama en líka frábært tækifæri fyrir hönnuði og tæknimenntað fólk að koma og fá leiðbeiningar frá sérfræðingum í faginu.
Vinnustofan kostar 9.000 kr. og er allt innifalið í því verði (matur, rúta, erlendir sérfræðingar).
OR mun planta fimm birkitrjám á hvern þátttakenda til kolefnisjöfnunar á vinnustofunni.