Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur auglýst hreindýraveiðikvóta ársins 2023.
Umhverfisstofnun annast sölu hreindýraveiðileyfa. Umsóknarfrestur er til og með þriðjudeginum 28.febrúar en umsóknum skal skilað inn á vef Umhverfisstofnunar www.ust.is/veidimenn. Útdráttur verður auglýstur síðar.
Heimilt er að veiða allt að 901 hreindýr árið 2023, 475 kýr og 426 tarfa. Þessi fjöldi er með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum.
Samkvæmt gjaldskrá nr. 111/2023 er veiðileyfagjaldið kr. 180.000 fyrir tarf og kr. 103.000 fyrir kú. Veiðileyfagjaldið greiðist eigi síðar en 15. apríl.
Veiðitími tarfa er frá 15. júlí til og með 15. september. Á tímabilinu 15. júlí til 1. ágúst er veiði á törfum einungis heimiluð að því tilskildu að þeir séu ekki í fylgd með kúm og að veiðarnar trufli ekki kýr og kálfa í sumarbeit.
Veiðitími kúa er frá 1. ágúst til og með 20. september. Þeim eindregnu tilmælum er beint til veiðimanna að fyrstu tvær vikur veiðitíma skulu veiðimenn og leiðsögumenn í lengstu lög forðast að fella mylkar kýr og veiða eftir fremsta megni geldar kýr. Þessum tilmælum er ætlað að draga úr áhrifum veiða á kálfa og stuðla að því að kálfar verði ekki móðurlausir fyrir 12 vikna aldur.
Í því skyni að draga úr líkum á að hreindýrin á veiðisvæði 9 leiti milli sauðfjárveikivarnahólfa yfir í Öræfasveit skulu dýr Suðursveitar, 18 tarfar og 22 kýr, veidd á Breiðamerkursandi og fjalllendi þar eftir fremsta megni. Tilmælum þessum er einnig ætlað að stuðla að fækkun hreindýra sem gengið hafa á Breiðamerkursandi og valdið þar skemmdum á viðkvæmum gróðri.
Á tímabilinu 1. nóvember til og með 20. nóvember eru veiðar á kúm heimilaðar á svæðum átta og níu. Í umsókn um veiðileyfi er valið um veiði á hefðbundnum veiðitíma eða nóvemberveiðitíma.
Veiðiheimildir árið 2023 skiptast sem hér segir eftir veiðisvæðum og kyni dýra:
Svæði | Kýr | Tarfar | Alls |
---|---|---|---|
1 | 110 | 110 | 220 |
2 | 15 | 15 | 30 |
3 | 50 | 56 | 106 |
4 | 52 | 18 | 70 |
5 | 47 | 39 | 86 |
6 | 33 | 64 | 97 |
7 | 114 | 70 | 184 |
8 | 10 | 22 | 32 |
8 (nóv) | 12 | x | 12 |
9 | 10 | 32 | 42 |
9 (nóv) | 22 | x | 22 |