Stök frétt

Þegar um er að ræða förgun vegna riðusmitaðs úrgangs er ávallt fyrsti kostur að koma úrgangnum til brennslu í brennslustöð sem til þess hefur starfsleyfi. Ef upp koma þær aðstæður að ómögulegt er að koma úrgangnum í brennslu er urðun næsti kostur. Ef þannig aðstæður koma upp þá er unnið eftir eftirfarandi leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um förgun og frágang. Áður en endanlegur staður er valinn til urðunar er svæðið metið út frá þeim umhverfisaðstæðum sem þar er að finna, t.d. gerð jarðvegs, grunnvatnsstöðu, rennslishátta og hæð í landi

Leiðbeiningar um urðun og frágang vegna riðusmitaðs úrgangs

  1. Framkvæmdaraðila ber að beita góðum starfsreglum við móttöku úrgangsins og urðun hans, með aðgerðum til að draga úr hugsanlegum umhverfisáhrifum. Jafnframt séu gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir mengunaróhöpp og draga úr afleiðingum þeirra.
  2. Fara þarf þannig með allan úrgang við meðhöndlun að tryggt sé að hann valdi sem minnstum óþrifnaði eða ónæði, svo sem foki úrgangsefna, ryki, ólykt eða hávaða.
  3. Aðgangur að gryfjunni sé takmarkaður og svæðið afgirt með fjárheldri girðingu. Tryggja þarf að skepnur hafi ekki aðgang að förgunarstaðnum hvorki þegar urðun fer fram né þegar staðurinn er lokaður. Girt verði fyrir aðgengi búfénaðar að yfirborðsvatni sem getur verið til staðar nálægt og í rennslisátt frá urðunarstaðnum.
  4. Verði vart við meindýr eða vargfugl skal séð til þess að þau hafist ekki við eða taki sér bólfestu á förgunarstaðnum, að teknu tilliti til laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
  5. Úrganginn þarf að hylja með jarðvegi þegar í stað eftir að honum hefur verið komið fyrir í gryfjunni. Við endanlegan frágang þarf gryfjan að vera hulin jarðvegslagi, eða lagi úr sambærilegu efni, a.m.k. 1 metra þykku, þannig að regnvatn renni greiðlega af þeim og sig regnvatns ofan í úrganginn sé lágmarkað. Óheimilt er að nota efni sem getur haft í för með sér fok, ónæði eða ólykt. Gott er að koma fyrir gróðri ofan á gryfjunni.
  6. Gryfjan skal hnitsett og færð í kortagrunn um mengaðan jarðveg í samræmi við reglugerð 1400/2020.
  7. Framkvæmdaraðila ber að hreinsa þá mengun sem kann að verða við óhöpp eða önnur atvik og sjá um að koma í veg fyrir að mengunarefni haldi áfram að breiðast út.
  8. Verði óhapp sem þarfnast tafarlausra aðgerða skal hafa samband við neyðarlínuna 112.
Leiðbeiningarnar taka meðal annars mið af leiðbeiningum Matvælastofnunar Sameinuðu Þjóðanna.