Stök frétt

Breytingar hafa orðið á leiðbeinandi viðmiðum Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) um tengsl loftmengunar og ótímabærra dauðsfalla. Breytingarnar koma í kjölfarið á útgáfu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á nýjum leiðbeiningum við mat á áhrifum loftmengunar á heilsu fólks árið 2021. 

Fram að þessu hefur EEA áætlað heildarfjölda ótímabærra dauðsfalla í Evrópu sem megi rekja til loftmengunar. Breytt reikniregla áætlar fjölda dauðsfalla sem hægt er að fyrirbyggja ef ríki ná loftmengun í sínu landi niður fyrir ákveðin mörk.  

Nýjar leiðbeiningar WHO eru niðurstöður umfangsmikillar vísindalegrar rannsóknarvinnu, en áður hafði WHO gefið út slíkar leiðbeiningar árið 2013.

Áhrif loftmengunar í lágum styrk ekki metin

Fram til ársins 2019 áætlaði EEA að á Íslandi mætti árlega rekja 50-91 ótímabært dauðsfall af völdum fíns svifryks (PM2,5). Þá var áætlað að öll svifryksmengun myndi hafa áhrif.  Það er að loftmengun myndi hafa neikvæð áhrif á heilsu um leið og hún mælist (fer yfir 0 µg/m3; míkrógrömm á rúmmeter) og að fjöldi ótímabærra dauðsfalla myndi aukast um 6,2% miðað við hverja 10 µg/m3 hækkun í styrk fíns svifryks. 

Í nýjum leiðbeiningum er gert ráð fyrir 8% hlutfallsaukningu í ótímabærum dauðsföllum miðað við hverja 10 µg/m3 hækkun í styrk fíns svifryks. Á móti kemur að innleidd mörk  þar sem mælingar á loftmengun undir 5 µg/m3 skyldu ekki vera með í heildarniðurstöðum, þ.e. heilsufarsleg áhrif loftmengunar undir þessum mörkum eru ekki metin.

Þetta var gert því að WHO telur ekki raunhæft að ríki muni ná loftmengun undir þessi mörk. Einnig hafa ekki fengist samhljóma niðurstöður í rannsóknum sem skoðuðu áhrif loftmengunar í lágum styrk (undir 5 µg/m3) á heilsu manna.   

Í töflu hér að neðan má sjá breytingar á stuðlum í leiðbeiningum WHO frá 2013 og í nýjum frá 2021. 

  

Rannsóknir sýna tengsl loftmengunar við verri lífsgæði

Í leiðbeiningum WHO er mælst til að notaður sé ársmeðaltalsstyrkur loftmengunar þegar áhrif á heilsu eru metin og tekið sé meðaltal frá öllum mælum sem eru staðsettir í hverju landi fyrir sig. 

Út frá þeirri aðferðafræði er ársmeðaltalsstyrkur svifryks á Íslandi í kringum 4,2 µg/m3, sem þýðir að samkvæmt nýjum leiðbeiningum eru ótímabær dauðsföll sem rekja megi til loftmengunar ekki metin. 

Hins vegar, þá fara fram mælingar á loftgæðum á Íslandi víða um land og flestir mælar eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þar og á Akureyri mælist loftmengun einna mest. Séu þeir mælar einungis skoðaðir, þar sem flestir búa, þá er ársmeðaltal svifryks síðustu ár á bilinu 5,4-8,4 µg/m3.

Ef miðast er við reiknivél WHO, þá má áætla að fjöldi dauðsfalla sé 7-60 miðað við ársmeðaltal 5,4-8,4 µg/m3 fyrir fínt svifryk ef ný aðferðafræði WHO er notuð. Einnig hafa íslenskar rannsóknir sýnt fram á tengsl loftmengunar á höfuðborgarsvæðinu við skert lífsgæði og ótímabær dauðsföll.

Til samanburðar má sjá í neðangreindri töflu áætlaðan fjölda ótímabærra dauðsfalla af völdum loftmengunar, frá 2018 til 2020, m.v. eldri og nýja aðferðafræði WHO.

Hversu mörgum mannslífum má bjarga?

EEA vill undirstrika að þó WHO innleiði nú neðri mörk þar sem heilsufarsleg áhrif loftmengunar eru ekki metin, þá eru engar vísindalegar sannanir fyrir því að loftmengun í lágum styrk hafi ekki áhrif á heilsu manna. 

Með þessari nýju aðferðafræði er ekki verið að reikna heildarfjölda dauðsfalla sem rekja megi til loftmengunar, heldur er verið að áætla hversu mörgum mannslífum megi bjarga ef ríkin ná loftmengun í sínu landi undir skilgreind mörk WHO. Þessi neðri styrkleikamörk eru í samræmi við þau mörk sem WHO mælir með að ríkin nái. Því segja þessar upplýsingar ekkert til um heildarfjölda dauðsfalla sem rekja megi til útsetningar loftmengunar.

Greining fyrir frekari niðurstöður 

Niðurstöður rannsókna um áhrif loftmengunar í lágum styrk eru fáar og  ósamhljóma. Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) hefur því gert ítarlegri greiningu til að geta áætlað fjölda ótímabærra dauðsfalla af völdum loftmengunar undir nýjum neðri styrkleikamörkum WHO.

EEA áætlar hér fjölda ótímabærra dauðsfalla út frá nýrri aðferðafræði WHO en hefur engin mörk fyrir fínt svifryk (PM2,5) og niturdíoxíð (NO2), þ.e. áhrif loftmengunar eru metin um leið og það verður einhver mengun, þ.e. mengun mælist meira en 0 µg/m3

 

Leiðbeiningarnar eru grunnur fyrir frekari vinnu

Þá er áréttað að leiðbeiningarnar eru ekki bundnar lögum. Þær eru tæki til að rannsaka þróun og áhrif loftmengunar á milli landa. Það sem virkar á einum stað virkar ekki á öðrum. Því er mikilvægt að leiðbeiningarnar verði notaðar sem grunnur að staðbundinni vinnu yfirvalda, heilbrigðisgeirans og annarra hagsmunaaðila við stefnumótun og gerð aðgerðaráætlana til að draga úr loftmengun fyrir aukin lífsgæði og bætta lýðheilsu í hverju landi fyrir sig. 

Í þessu samhengi er vert að nefna að önnur Norðurlönd hafa innleitt sína eigin aðferðafræði og áætla fjölda dauðsfalla sem megi rekja til loftmengunar í sínu landi með henni. Umhverfisstofnun hefur nú þegar hafið þá vinnu í samstarfi við Norðurlöndin, Háskóla Íslands og fleiri, enda eru hér kjör aðstæður til að meta áhrif loftmengunar í lágum styrk á heilsu manna.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vef EEA í nýjustu ársskýrslu EEA um loftmengun í Evrópu og áhrif hennar á heilsu. Einnig má finna nýjar leiðbeiningar Alþjóðaheilbrigðisstofnunar og samanburð útreikninga á vef EEA.