Stök frétt

Mynd: Alfonso Navarro - Unsplash

Ný reglugerð nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs tók gildi 25. júlí síðastliðinn en hún kemur í stað reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og fellir hana brott.
 
Ýmsar breytingar eru að finna í nýju reglugerðinni og eru þar til að mynda nú ítarlegri ákvæði um svæðisáætlanir sveitarfélaga og töluleg markmið hafa verið uppfærð ásamt viðmiðunum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun. Þá hafa í reglugerðinni verið sett nánari skilyrði fyrir undanþáguheimild fyrir ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs um sérstaka söfnun tiltekinna úrgangstegunda og auk þess er að finna í reglugerðinni viðauka um samræmdar merkingar úrgangstegunda ásamt fleiri breytingum. 
 
Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru tilkomin vegna breytinga sem urðu um síðustu áramót á lögum um meðhöndlun úrgangs, sbr. breytingarlög nr. 103/2021 sem hafa verið kölluð hringrásarlögin. Lögin innleiða m.a. endurskoðaða tilskipun Evrópusambandsins 2008/98/EB um úrgang en megintilgangur endurskoðunarinnar var að innleiða hringrásarhagkerfi og slíta tengslin milli hagvaxtar og myndunar úrgangs.

Reglugerð 803/2023