Stök frétt

Auður H. Ingólfsdóttir, nýr sviðsstjóri á sviði loftslagsmála og hringrásarhagkerfis

Auður H. Ingólfsdóttir hefur verið ráðin í starf sviðsstjóra á sviði loftslagsmála og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun. Auður tekur til starfa 1. desember 2023. 

Auður er alþjóðastjórnmálafræðingur. Hún lauk meðal annars doktorsnámi í alþjóðastjórnmálum og kynjafræði frá Háskóla Íslands og University of Lappland í Finnlandi árið 2016. Í námi lagði Auður sérstaka áherslu á alþjóðleg umhverfismál, auðlindanýtingu, úrlausn deilumála og sjálfbæra þróun.

Auður hefur lokið námi í markþjálfun og leggur nú stund á diplómanám í jákvæðri sálfræði.

Frá árinu 2019 hefur Auður rekið eigið fyrirtæki að nafni Transformia - Sjálfsefling og samfélagsábyrgð. Þar leggur hún áherslu á þekkingarsköpun, fræðslu og miðlun um fjölbreytileg málefni sem tengjast sjálfbærni, sjálfseflingu og samfélagsábyrgð.

Samhliða eigin rekstri og ráðgjöf var Auður formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs á árunum 2020-2022. Þar áður starfaði Auður við rannsóknir og ráðgjöf, meðal annars hjá Utanríkisráðuneytinu og UMÍS ehf Environice. Ásamt því að kenna á háskólastigi í rúma tvo áratugi.

„Fjölbreytt reynsla Auðar úr vísindum og stjórnsýslu og alþjóðleg menntun skapar mikil tækifæri í því stóra samfélagsverkefni sem loftslagsmálin eru“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. 

Starfsfólk Umhverfisstofnunar hlakkar til að vinna með Auði.