Stök frétt

Nýtt heildstætt mat á lífríki Norðaustur-Atlantshafsins er komið út / Mynd: Canva

Líffræðilegum fjölbreytileika hrakar og búsvæðum lífvera í Norðaustur-Atlantshafinu heldur áfram að hnigna. Þetta eru meðal helstu niðurstaða nýrrar skýrslu á vegum OSPAR-samningsins um ástand Norðaustur-Atlantshafsins og aðliggjandi hafsvæða.

Skýrslan (QSR 2023) er afrakstur vinnu samningsaðila, skrifstofu OSPAR og yfir 400 vísindamanna og sérfræðinga.

Heildstætt mat á lífríki Norðaustur-Atlantshafsins

Lagt var mat á stöðu ýmissa þátta sem hafa áhrif á ástand Norðaustur-Atlantshafsins og kannað hvernig aðstæður hafa breyst frá útgáfu síðustu skýrslu (QSR 2010). Þetta eru þættir eins og:

 • Losun mengandi efna í hafið
 • Ofauðgun næringarefna
 • Fiskveiðar
 • Rusl í hafinu
 • Búsvæði botns og uppsjávar
 • Áhrif loftslagsbreytinga
 • Súrnun sjávar
 • Hávaðamengun

Útkoman er heildstætt mat á lífríki Norðaustur-Atlantshafsins.

Þörf á aðgerðum til að snúa þróuninni við

Þar er megin niðurstaðan sú að þrátt fyrir að verulegur árangur hafi náðst á ýmsum sviðum bæði hvað varðar mengun og nýtingu fiskistofna hrakar líffræðilegum fjölbreytileika og hnignun búsvæða heldur áfram víða á hafsvæði OSPAR. Það er því ljóst að frekari aðgerða er þörf og að auka verður skilvirkni núverandi aðgerða til að ná árangri og snúa þróuninni við.

Næstu skref

Í lok skýrslunnar er fjallað um megin niðurstöður matsins út frá fimm mikilvægum spurningum:

 1. Hver eru lykilatriðin?
 2. Hvað hefur verið gert?
 3. Hefur það virkað?
 4. Hvað gerum við næst?
 5. Hvaða áhrif hefur það á hafsvæðið í heild?
Mynd: Istock

Tengt efni