Stök frétt

Meðaleinkunn áfangastaða á friðlýstum stæðum hefur breyst lítið undanfarin þrjú ár / Mynd: Canva

Áfangastaðir ferðamanna innan friðlýstra svæða eru í svipuðu ástandi og fyrri ár þrátt fyrir um 30% fjölgun ferðamanna á mörgum þeirra. Meðaleinkunn áfangastaða stendur nánast í stað og færri staðir eru metnir í hættu. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um ástand áfangastaða innan friðlýstra svæða árið 2023.

Meðaleinkunn áfangastaða stendur í stað

Meðaleinkunn allra metinna áfangastaða árið 2023 er 7,68. Það er nánast engin breyting á einkunn undanfarinna þriggja ára: 

Ár     Meðaleinkunn
2023     7,68
2022     7,70
2021     7,68

Tæplega helmingur í mjög góðu ásigkomulagi 

Af 143 áfangastöðum sem voru metnir árið 2023 fengu 42% þeirra yfir 8 af 10 í einkunn og náðu inn á svokallaðan græna lista. Það eru 2% færri áfangastaðir er árið 2022. Áfangastaðir sem ná yfir 8 í einkunn eiga að geta tekið á móti gestum án neikvæðra áhrifa á umhverfið.

Þrír nýir áfangastaðir náðu inn á græna listann í ár: Arnarstapi, Spákonufellshöfði og Stöng og Gjáin innan Þjórsárdals.

Álag vegna fjölgunar gesta er megin ástæða þess að áfangastaðir lækka í einkunn. En 7 áfangastaðir lækka umtalsvert milli ára, eða um 0,5 eða meira í einkunn. Þar þarf að grípa til aðgerða og er þá mismunandi milli svæða hvort þær aðgerðir séu innviðauppbygging, betri stýring eða aukin landvarsla. 

Áfangastaðir innan friðlýstra svæða stóðust vel aukið álag ársins 2023 / Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Færri svæði í vanda

Áfangastöðum þar sem hugsanlega hætta er á að þeir tapi verndargildi sínu og þörf er á aðgerðum til afstýringar hefur  heildarfjöldi svæða fækkað um eitt milli ára og eru nú 15 talsins.

Tvö svæði unnu sig upp af listanum, Hveravellir og Rauðhólar, og tvö svæði komu ný inn í ástandsmatið í ár, Bæjarstaðarskógur og Kristínartindar innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Þrír áfangastaðir í verulegri hættu

Þrír áfangastaðir eru í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu. Þar þarf að grípa til tafarlausra aðgerða. Staðirnir fá undir 5 í einkunn og hafa verið á rauðum lista ítrekað undanfarin ár.

Áfangastaðirnir eru:

  • Suðurnám innan Friðlands að Fjallabaki
  • Námuvegur innan Vatnajökulsþjóðgarðs
  • Vigdísarvellir og Vigdísarvallarleið innan Reykjanesfólkvangs

Suðurnám og Námuvegur hafa náð að hækka örlítið í einkunn en ekki nóg til að fara út af rauðum lista.

Vigdísarvellir og Vigdísarvallarleið verða enn fyrir miklum skemmdum, ekki síst vegna aukins aksturs utan vega sem að hluta til helgast af nálægð svæðisins við eldstöðvarnar.

Mynd: Eldgos á Reykjanesi vorið 2021 / Unsplash

Eldgos á Reykjanesskaga hafa aukið enn á akstur utan vega á svæðinu / Mynd: Unsplash.

Ástandsmat mikilvægt verkfæri

Umhverfisstofnun hefur nú unnið ástandsmat á áfangastöðum innan friðlýstra svæða undanfarin sex ár. Verkfærið gagnast vel við að vernda íslenska náttúru fyrir ágangi og forgangsraða úrbótum innan hvers svæðis fyrir sig.

Með því að fylgjast markvisst með þróun og ástandi á áfangastöðum er hægt að grípa inn í áður en til óefna kemur. Stofnunin vinnur samkvæmt því og leggur sérstaka áherslu á að bæta þau svæði sem koma illa út úr matinu.

Systurstofnanir Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarður og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hafa tekið þátt í verkefninu og metið áfangastaði innan sinna svæða. Ástandsskýrslan er samstarfsverkefni stofnananna. Hún veitir upplýsingar um ástand áfangastaða innan allra þjóðgarða á Íslandi og flestra annarra friðlýstra svæða.

 

Tengt efni: