Stök frétt

Uppbygging nýrra gönguleiða á Geysissvæðinu er að hefjast / Mynd: Canva

Á næstu dögum hefjast framkvæmdir vegna uppbyggingar nýrra gönguleiða við náttúruvættið Geysi í Haukadal. Samkvæmt áætlunum verktaka munu þær standa yfir fram á haust.

Gönguleiðirnar munu auka öryggi gesta, bæta aðgengi og upplifun ásamt því að auðvelda stýringu flæðis gangandi gesta með tilliti til gróðurverndar.

Framkvæmdunum getur fylgt bæði truflun fyrir gesti og jarðrask. Það er líklegt að sjá muni á gróðri í nágrenni gönguleiðanna á meðan á framkvæmdum stendur. Þess mun verða gætt eftir fremsta megni að halda raski í lágmarki og lagfæra eins og hægt er að framkvæmd lokinni.

Aðgengi að hverasvæðinu verður að mestu óhindrað á framkvæmdatíma. Þó gæti þurft að takmarka aðgengi að hluta eftir framvindu verks. 

Landmótun sf. landslagsarkitektar hanna breytingarnar á Geysissvæðinu. Hönnunin er byggð á sigurtillögu fyrirtækisins í samkeppni sem lauk árið 2014, en hefur verið aðlöguð að stóraukinni umferð ferðafólks um svæðið.

Framkvæmdir á svæðinu eru í höndum Wiium ehf. verktaka. Umsjónaraðili verkefnisins fyrir hönd Umhverfisstofnunar er Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, FSRE.

Geysissvæðið hefur verið friðlýst frá árinu 2020 og er einn fjölsóttasti áfangastaður ferðamanna á Íslandi. 

Kort af Geysissvæðinu sem sýnir framkvæmdasvæðið.

Tengt efni: