Stök frétt

Ársáætlun Umhverfisstofnunar fyrir árið 2024 er komin út. 

Verkefni til að ná markmiðum stefnunnar

Í ársáætluninni eru helstu umbóta- og þróunarverkefnin stofnunarinnar kynnt. Þau eru byggð á stefnu Umhverfisstofnunar 2023 – 2025 og kallast stefnuverkefni. Starfsfólk stofnunarinnar á sjálft frumkvæði að þessum verkefnum. Leiðarljós stefnu Umhverfisstofnunar er að virðing fyrir náttúrunni sé samofin allri ákvarðanatöku í samfélaginu.

Í áætluninni er einnig yfirlit yfir regluleg verkefni starfsfólks, fjölda þeirra og hvernig þau hafa þróast. Slík verkefni eru kölluð afgreiðsluverkefni. 

Starfsfólk Umhverfisstofnunar kemur saman einu sinni á ári til að setja sér verkefni til að framfylgja stefnu stofnunarinnar. 

Ávarp forstjóra

Í ávarpi Sigrúnar Ágústsdóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar, gerir hún grein fyrir stærstu verkefnum ársins. Eitt þeirra er að reyna að skerpa á og einfalda leyfisveitingaferli, þar segir hún meðal annars: „Í verkefnum sem þessum verðum við að vera óhrædd við að rýna til gagns ferlin frá upphafi til enda, hreyfa við löggjöf þvert á stjórnkerfið og lóðrétt frá áætlunum til eftirlits með bætta þjónustu að leiðarljósi.“

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, á Starfsdegi stofnuninnar í september 2023.

Áætlaður rekstur

Árið 2024 er áætlað að heildarútgjöld Umhverfisstofnunar nemi 2.651 m.kr. og heildartekjur 685 m.kr. Fjárveiting til stofnunarinnar til reksturs í fjárlögum fyrir 2024 er 1.872 m.kr.  Aftast í áætluninni er sundurliðun á rekstrartölum ársins. 

Skoða Ársáætlun Umhverfisstofnunar 2024

Hugmyndum starfsfólks að nýjum stefnuverkefnum fyrir árið 2024 vel fagnað.