Stök frétt

Ferðaþjónustudagurinn 2024 verður haldinn í Hörpu mánudaginn 7. október undir yfirskriftinni:

„Álagsstýring á fjölsóttum ferðamannastöðum“

Ráðstefnan fer fram í Silfurbergi frá kl. 9.00 til 16.30.

Samtök ferðaþjónustunnar standa að Ferðaþjónustudeginum 2024 í samstarfi við Ferðamálastofu, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð og Þingvallaþjóðgarð.

Álagsstýring – áskoranir og tækifæri

Á ráðstefnunni verður fjallað um álagsstýringu á fjölsóttum ferðamannastöðum þar sem sjónum verður meðal annars beint að áskorunum og reynslu hér á landi sem erlendis og samtali stjórnvalda og fyrirtækja í ferðaþjónustu um þetta mikilvæga viðfangsefni. Þá verður jafnframt horft til nýsamþykktrar ferðamálastefnu í þessu samhengi sem leggur áherslu á þrjár víddir sjálfbærnihugtaksins – efnahag, samfélag og umhverfi.

Erlendir og innlendir fyrirlestrar ásamt umræðum

Fyrirlesarar frá stofnuninni Department of Conservation í Nýja Sjálandi, Visit Scotland og Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna (e. National Park Service) munu segja frá skipulagi álagsstýringar á ferðamannastöðum í þessum þremur löndum, rýna í raundæmi og fjalla um reynslu af útfærslu og framkvæmd stýringar á álagi í samhengi við ávinning og áskoranir ferðaþjónustufyrirtækja.

Meðal annarra þátttakenda í ráðstefnunni verða Einar Á. E. Sæmundsen frá Þingvallaþjóðgarði, Ingibjörg Halldórsdóttir frá Vatnajökulsþjóðgarði, Inga Dóra Hrólfsdóttir frá Umhverfisstofnun og Ragnar Árnason frá Háskóla Íslands, ásamt ráðherrum ferðamála og umhverfismála.

Takið mánudaginn 7. október frá

Nánari upplýsingar um dagskrá og miðasölu verða kynntar í byrjun september.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarður og Þingvallaþjóðgarður