Stök frétt

Umhverfisstofnun vinnur nú að eftirliti með innflutningi efna til landsins frá löndum utan EES. Markmiðið er að skoða hvort innflutningsaðilar hér á landi séu að uppfylla ákvæði um skráningarskyldu.

Af hverju þarf að skrá efni?

Fyrirtæki þurfa að skrá efnin sín til að tryggja að þau séu örugg fyrir heilsu manna og umhverfi. Skráning gerir fyrirtækjum kleift að framleiða, flytja inn eða nota efni á löglegan hátt innan ESB og hjálpar þeim að sýna fram á að öryggisstaðlar séu uppfylltir. Með skráningu veita fyrirtæki verðmætar upplýsingar um áhættu og örugga notkun efna, sem aftur stuðlar að gagnsæi og trausti við eftirlitsaðila, viðskiptavini og önnur fyrirtæki.

Skylduna til að skrá efni er að finna í ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 1907/2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (RECAH) sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 888/2015 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH).

Hverjir þurfa að skrá efni?

Framleiðendur, innflytjendur og eftirnotendur efna innan EES þurfa að meta og stýra áhættu sem getur stafað af efnum sem þeir meðhöndla. Fyrirtæki sem framleiða eða flytja inn á EES eitt tonn eða meira á almanaksári þurfa að skrá efnin hjá Efnastofnun Evrópu (ECHA) áður en efnin eru sett á markað. Þetta gildir bæði fyrir efni eitt og sér og í blöndu. 

Ert þú einn af þessum aðilum? Athugaðu hvort þú berð einhverjar skyldur.

  • Framleiðendur: Einstaklingur eða lögaðili sem er með aðseturá Evrópska efnahagssvæðinu sem framleiðir efni innan svæðisins.
  • Innflytjendur: Einstaklingur eða lögaðili inni á Evrópska efnahagssvæðinu sem er ábyrgur fyrir innflutningi inn á svæðið. Þetta getur verið innflutningur á hreinum efnum eða sem hluti af blöndu t.a.m. málningu, þvotta- og hreinsivörum.
  • Eftirnotendur: Einstaklingur eða lögaðili inni á Evrópska efnahagssvæðinu, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem notar efni, hreint eða í efnablöndu, í iðnaði eða við faglega starfsemi. Dreifandi og neytandi eru ekki eftirnotendur í þessum skilningi. Eftirnotendur þurfa að ganga úr skugga um að efnin sem þeir nota séu skráð og uppfylli ákvæði REACH reglugerðarinnar. 

Eru undanþágur frá skráningarskyldunni?

Tiltekin efni og efnaflokkar eru undanþegin skráningarskyldu en þau er að finna í IV. og V. viðauka við REACH. Dæmi um slík efni eru glúkósi, frúktósi, laktósi, eðalgös, vatn og sellulósi. Dæmi um efnaflokka eru náttúrleg gös, gler, molta, fituefni og olíur sem ekki hefur verið breytt með efnafræðilegum aðferðum.

Að auki er sum notkun undanþegin þegar efni eru einungis notuð í ákveðnum tilgangi til að mynda:

  • Bragðefni og íblöndunarefni fyrir matvæli
  • Efni til framleiðslu lyfja
  • Virk efni í sæfivörum eða plöntuverndarvörum
  • Efni sem eru notuð við vöru- og ferlamiðaðar rannsóknir og þróun (e. product and process orientated research and development, PPORD)

Að sama skapi eru til undantekningar sem tengjast uppruna efnisins. Til að mynda þarf ekki að skrá úrgang eða efni sem hafa nú þegar verið skráð, flutt út af EES og svo endurinnflutt inn á svæðið.

Hvernig á að skrá efni?

Fyrsta skrefið í því að skrá efni er að senda svokallaða fyrirspurn (e. inquiry) til ECHA um skráningu tiltekins efnis. Þetta þarf að gera til að kanna hvaða gögn eru þegar fyrir hendi um efnið. Í þessu ferli mun ECHA einnig setja þig í samband við leiðandi skráningaraðila (e. lead registrant). Ekki er hægt að halda áfram með skráninguna fyrr en svar við fyrirspurninni hefur borist frá ECHA. Nákvæmar upplýsingar og leiðbeiningar um ferlið má nálgast á heimasíðu ECHA.

Áhrif Brexit á skráningarskyldu

Við vekjum athygli og minnum á að Bretland er ekki lengur í Evrópusambandinu og telst því sem land utan EES. Því er mikilvægt fyrir innflutningsaðila sem hyggjast flytja inn efni frá Bretlandi að athuga hvort efnið eða efnablandan sé nú þegar skráð til dæmis ef búið er að tilkynna fulltrúa innan EES sem tekur að sér að skrá efni fyrir hönd aðila utan EES. Sé efnið ekki þegar skráð fellur skráningarskyldan á innflytjandann.

Samstarfsverkefni um efnaeftirlit

Þetta eftirlit Umhverfisstofnunar er hluti af samevrópsku eftirlitsverkefni sem samræmt er af gagnaskiptatorgi um framkvæmd efnalöggjafar (Forum). Samstarfsverkefnin á vegum gagnaskiptatorgsins eru haldin reglulega og miða að því að samræma framfylgni reglugerða í EES-ríkjunum. Áhersla verkefnanna er mismunandi hvert sinn en hægt er að nálgast skýrslur fyrri verkefna hér.