Frétt

Umhverfisstofnun heldur utan um og hefur eftirlit með framkvæmd hreindýraveiða samkvæmt fyrirmælum laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerð um stjórn hreindýraveiða nr. 486/2003. Í þessu felst m.a. að tryggja að veiðarnar fari fram með sjálfbærum hætti í samræmi við markmið laganna eins og þau birtast í 2. gr. þeirra.

Á veiðisvæði 9 hafa nú verið veiddar 7 kýr af þeim 25 kúa kvóta sem úthlutað var á svæðið. Á veiðisvæði 9 er aðeins vitað um 12 kýr á veiðanlegum svæðum (við Flatey og í Heinabergsdal) og því ljóst að eins og staðan er núna dugar það ekki til að náist að veiða upp í kvótann og jafnframt má ætla að áframhaldandi sókn í þann hóp veiðidýra sem vitað er um á svæðinu leiði til ofveiði úr þeirri tilteknu hjörð. Með tilliti til þessa hefur Umhverfisstofnun í samráði við Náttúrustofu Austurlands ákveðið að stöðva veiðar á þessum tilteknu kúm á svæði 9. Ákvörðunin er tekin með vísan til 2. mgr 6. gr. reglugerðar nr. 486/2003 um stjórn hreindýraveiða en þar segir m.a.:

“Skal stofnunin [Umhverfisstofnun]í samráði við Náttúrustofu Austurlands leitast við að stýra veiðum þannig að veiðar á hverju ágangssvæði taki mið af skiptingu dýranna í hjarðir innan veiðisvæðis og sé í samræmi við úthlutaðan kvóta."

Til að bregðast við þessu hefur Umhverfisstofnun, með vísan til auglýsingar umhverfisráðuneytisins um hreindýraveiðar ársins 2012 og í samráði við Náttúrustofu Austurlands, ákveðið að opna fyrir skörun vegna veiða á kúm af veiðisvæði 9 yfir á austurhluta svæðis 8 þannig að veiðarnar fari fram austan Jökulsár í Lóni. Jafnframt verður opnuð skörun á veiði á kúm af svæði 8 yfir á svæði 7 að Suðurá í Flugustaðardal. Ákvörðun þessi verður endurskoðuð verði einhverjar breytingar á fjölda og dreifingu dýra á svæðunum.

Veiði- og leiðsögumenn eru áminntir um mikilvægi þess að tilkynna sig á veiðar til starfsmanns Umhverfisstofnunar og jafnframt að hafa ber samráð við stofnunina um framkvæmd skörunar. Sérstaklega er minnt á að til að fylgja veiðimönnum verða leiðsögumenn að hafa leiðsöguréttindi á því svæði sem skarað er inn á.