Stofnun Þjóðgarðsins

Snæfellsjökulsþjóðgarður var stofnaður 28. júní árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Jafnframt er markmiðið að auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því.

Friðlýsing á utanverðu Snæfellsnesi á sér nokkuð langan aðdraganda. Eftir setningu laga um náttúruvernd árið 1971 fjallaði Náttúruverndarráð um friðlýsingu á ytri hluta Breiðavíkurhrepps.

Ári síðar var fyrsta náttúruverndarþingið haldið og ályktaði það um að stofna þjóðgarð á Snæfellsnesi. Í skýrslu um störf Náttúruverndarráðs fyrir árin 1972-75 kemur fram að unnið hafi verið að stofnun þjóðgarðs eða friðlýsingar á utanverðu Snæfellsnesi og höfðu viðræður við landeigendur þá þegar hafist. Árið 1977 kom fram tillaga um friðland undir jökli en hún náði ekki fram að ganga.

Það var síðan árið 1994 sem þáverandi umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, skipaði undirbúningsnefnd til að vinna að stofnun þjóðgarðs. Formaður þeirrar nefndar var Sturla Böðvarsson, fv. samgönguráðherra og skilaði nefndin lokaskýrslu árið 1997. Sú skýrsla er grunnur að þeirri vinnu sem fram fór í kjölfarið. Árið 2000 var síðan ákveðið að stofna þjóðgarðinn ári síðar.

Um miðjan maí 2001 skipaði Siv Friðleifsdóttir þáverandi umhverfisráðherra fimm manna starfshóp til að annast undirbúning að stofnun hans. Þjóðgarðurinn var síðan stofnaður, eins og fyrr segir, þann 28. júní 2001.

Stofnun þjóðgarðs er staðfesting þess að á svæðinu sé að finna merkar menningar- og/eða náttúruminjar sem vert sé að varðveita. Með því að gera landsvæði að þjóðgarði erum við að vernda það fyrir framtíðina en einnig að tryggja að allir hafi sama tækifæri til að njóta þess. Orð Eysteins Jónssonar ráðherra fyrir um 35 árum eiga vel við þegar þjóðgarða og mikilvægi þeirra ber á góma og gerði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra þessi orð hans að sínum á stofndegi þjóðgarðsins. Eysteinn sagði:

„Þetta að umgangast land, það er í raun og veru alveg eins og að umgangast fólk. Það er í raun og veru innst inni ekki svo ýkja mikill munur á því. Ef menn umgangast ekki, er hætt við að kunningsskapurinn verði lítill og vinátta ekki djúpstæð."